Fréttir
  • Gunnar Smári 1nov11

1.11.2011

Rótarýfundur 1. nóvember - Vímuefnavandi ungs fólks.

Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ, flutti erindi um vímuefnavanda ungs fólks.

Forseti las bréf frá Helga Jóhannssyni þar sem hann segir sig úr klúbbnum af því að hann á ekki heimangengt á fundartíma klúbbsins.

Fundurinn var í umsjón Æskulýðsnefndar. Formaður hennar er Sigurjón Sigurðsson en Jón Ögmundsson kynnti fyrirlesara dagsins, Gunnar Smára Egilsson, formann SÁÁ. Erindi hans fjallaði um vímuefnavanda ungs fólks. Gunnar hefur verið blaðamaður á ýmsum blöðum á undanförnum áratugum, ritstjóri Fréttablaðsins og forstjóri Dagsbrúnar hf.  

Í upphafi gerði hann  grein fyrir að erindi hans myndi fjalla um málið frá sjónarhorni leikmanns og ekki vera á fræðilegum forsendum.

Hann taldi að ekki væri um að ræða aukningu í fjölda neytenda, en þrátt fyrir það væri fjöldinn allt of mikill. Skipting milli efna er  þannig að 10% þeirra sem eru undir 25 ára aldri eiga við áfengisvanda að stríða en hinir önnur eiturlyf. Hreinar fyllibyttur eru núna á á aldrinum 65+ og því virðist þetta vera deyjandi stétt. Beint samhengi er á milli magns í sölu áfengis og áfengisvanda. Einnig er beint samhengi milli magns áfengis og magns eiturlyfja. Hækkandi verð dregur úr neyslu. Þetta á við um öll efni.

Endurhæfing til þátttöku í samfélaginu eftir meðferð þarf að vera mun meiri en nú er. Máttur forvarna virðist fara þverrandi en aðhald foreldra og minnkandi aðgengi að vímuefnum skilar árangri.

SÁÁ tók til starfa 1977 og lagði til grundvallar að alkóhólismi væri sjúkdómur. Þessu var tekið fagnandi og félagið fékk fjármagn til að leysa verkefnið samhliða því sem fræðsla til nemenda var aukin. Þá var búið að sópa vandanum undir teppið og hinn almenni borgari gat snúið sér að drykkju fyrir alvöru.

Þetta hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var og því sitjum við uppi með vanda barna og unglinga sem samfélagið verður að takast á við um ófyrirsjáanlega framtíði.