Fréttir
  • Bender 4okt11

4.10.2011

Á Rótarýfundi 4. október var Ingólfur Bender hjá Íslandsbanka ræðumaður dagsins og Benjamín Magnússon flutti 3ja mínútna erindi. Minnst var látins félaga, Stefáns M. Gunnarssonar.

Stefán Gunnarsson

Í upphafi fundar minntist forseti látins félaga, Stefáns  Magnúsar Gunnarssonar, sem lést þann 26. september s.l. 77 ára að aldri.  Stefán  fæddist 6. des  1933 að Æsustöðum í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu.  Foreldrar hans voru Sigríður Stefánsdóttir og Gunnar Árnason sóknarprestur.

Stefán lauk landsprófi 1951 og útskrifaðist frá framhaldsdeild  Samvinnuskólans í Reykjavík 1954. Hann starfaði hjá Sambandi Íslenskra Samvinnufélaga og kaupfélögum á árunum 1954 – 1960 var m.a. kaupfélagsstjóri Kaupfélags Kópavogs 1959 – 1960.  Hóf störf hjá Landsbanka Íslands – Seðlabanka 1961 og var við bankastörf til starfsloka 1998. Stefán var m.a. bankastjóri Alþýðubankans í 11 ár.

Stefán gekk í Rótarýklúbb Kópavogs 7. mars 1978, hætti á tímabili og gekk aftur í klúbbinn fyrir nokkrum árum. Stefán var m.a. endurskoðandi klúbbsins seinustu árin sem hann starfað í klúbbnum.

3ja mínútna erindi flutti Benjamín Magnússon. Gerði hann að umræðuefni heimsókn til Siglufjarðar á síðasta sumri, sérstaklega ræddi hann söfnin á staðnum.

Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar. Formaður hennar, Eggert Þór Kristófersson, kynnti fyrirlesara fundarins, Ingólf Bender, aðalhagfræðing Íslandsbanka. Hann lauk mastersprófi frá HÍ 1997 og hefur starfað hjá Íslandsbanka frá 2000.

 Ingólfur nefndi erindið: Skuldakreppa, höft og hið íslenska hagkerfi. Hvert stefnir?.

Í upphafi fjallaði hann um stöðu efnahagsmála erlendis en hóf síðan yfirferð um efnahagsmál á Íslandi.

Hagvöxtur er komin aftur í gang eftir langvinnan samdrátt, en hann er drifinn áfram af einkaneyslu og fjárfestingu. Stærsta vandamálið er langvarandi atvinnuleysi, skuldavandi heimila og fyrirtækja. Þetta er áhyggjuefni í ljósi skuldavanda landanna í kringum okkur.

Þá fjallaði hann um hrun á alþjóðamörkuðum. Skuldsett ríki eru vandamál sem stafa annars vegar af hallarekstri og hins vegar af aðstoð við fjármálakerfið. Þessi staða gæti snúist upp í nýja bankakreppu vegna rýrnandi virðis eigna og lausafjárskorts.

Áhrif hér á landi eru minni en ætla mætti m.a. vegna gjaldeyrishafta og góðrar lausafjárstöðu íslenska ríkisins. Verðbólga fer vaxandi en ástæður þess eru nýgerðir kjarasamningar og hækkandi verðlag erlendis á olíu og hrávöru. Bankinn gerir ráð fyrir 5,6% verðbólgu í vetur en að hún fari síðan hjaðnandi.

Þá ræddi Ingólfur um mikinn slaka á vinnumarkaði, atvinnuleysi tæplega 8% og vaxandi langtímaatvinnuleysi. Seðlabankinn hækkar vexti með þeim rökum að verbólga sé há og verðbólguvæntingar miklar. Bankinn spáir þó óbreyttum vöxtum út næsta ár. Krónan hefur verð að styrkjast. Höftin verða enn um sinn og raungengi krónunnar lágt. Vísbendingar eru um að húsnæðismarkaður sé að taka við sér.

Þrátt fyrir erfið ytri skilyrði taldi Ingólfur að þróunin væri í rétta átt og hagvöxtur út árið svipaður og hann hefur verið á árinu en eitthvað minni á næsta ári.