Fréttir
  • Stefán Haukur 27sept11

27.9.2011

Á Rótarýfundi 27. september fjallaði Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra um stöðu aðildarumsóknar Íslands að ESB. Margrét María Sigurðardóttir flutti 3ja mínútna erindi. Á fundinum voru m.a. 5 gestir frá umdæmi 9780 í Ástralíu

Í upphafi fundar las forseti bréf frá Kristjóni Kolbeins þar sem hann sagði sig úr klúbbnum af heilsufarsástæðum.

3ja mínútna erindi flutti Margrét María Sigurðardóttir. Ræddi hún um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stöðu íslands með tilliti til hans.  

Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar. Páll Magnússon kynnti fyrirlesara dagsins, Stefán Hauk Jóhannesson sendiherra og aðalsamningamann um ESB aðild. Stefán lauk embættisprófi í lögfæði frá HÍ 1985 og hefur starfað i utanríkisþjónustunni frá 1986 þar sem hann hefur sinnt margvíslegum verkefnum bæði fyrir Ísland og alþjóðastofnanir.

Stefán nefndi erindi sitt: Staða samningaviðræðna Íslands við ESB.

Í upphafi gerði hann grein fyrir sögu málsins og rakti helstu atriði. Þá gerði hann grein fyrir þróun Evrópusamstarfs Íslands, þ.e. Nató, EFTA, EES, Schengen og nú ESB umsóknin. Alþingi ákvað í upphafi að sækja um aðild. Utanríkisráðherra stýrir aðildarferlinu en hagsmunaaðilar og félagasamtök eru virk í þessu ferli. Samninganefndin er með 10 undirnefndir. Allir nefndarmenn er með víðtæka sérþekkingu hver á sínu sviði.

Samningaferlið er þríþætt, umsókn, viðræður og fullgilding. Þá rakti hann efniskafla samninganna, 10 eru þegar í löggjöf í íslands, 11 að mestu leyti en 12 sem viðræðurnar í raun snúast um, þar af 5 sem eru viðamest.

Það tók okkur eitt ár að fá stöðu umsóknarríkis. Ári síðar hófust formlegar viðræður um einstaka kafla en gert er ráð fyrir að eftir ár verði búið að opna á alla samningskafla. Mottó er Gæði umfram hraða.

Sjávarútvegsmál. ESB hefur aldrei samið við ríki þar sem þessi málaflokkur er jafn mikilvægur fyrir umsóknarríki. Þá er sérstaða Íslands veruleg vegna þeirra stofna sem Íslendingar veiða og eru ekki sameiginleir með öðrum þjóðum. Veiðireynsla gerir það að verkum að Ísland fær væntanlega eitt ríkja heimildir til þessara veiða. Hins vegar gildir annað um fjárfestingar í sjávarútvegi sem Ísland hefur haft sérstöðu með þar sem útlendingar hafa ekki heimild að fjárfesta umfram 49% í einstökum fyrirtækjum.  

Landbúnaður.Lítill tími gafst til að gera þessum kafla skil en ljóst er að mikill munur er á landbúnaði innan ESB og á Íslandi.

Gjaldeyrismál.Stefán gerði grein fyrir skilyrðum þess að taka upp evru og ræddi stuttlega stöðu gjaldeyrismála í Evrópu í dag.

Að síðustu ræddi hann um byggðastyrki og styrkjamál ESB.


Góðir gestir frá Ástralíu

Á fundinum voru 5 góðir gestir frá Ástralíu, sem verða hér næstu 4 vikurnar á vegum Starfshópaskiptanefndar umdæmisins í Rótarýprógramminu Group Study Exchange. Þeir kynntu sig stuttlega á fundinum, en munu væntanlega koma aftur í heimsókn á Rótarýfund, sem verður að mestu tileinkaður þeim.

Hópurinn, talið frá vinstri: Kara Gough, Kim Watts, Brendon Foran, Michael Garner og Jeney Preston.

Ástralir á fundi 27sept11

Fyrirliði hópsins, Janey Preston, afhendir Magnúsi forseta fána Rotary Club of Warrnambool Daybreak, sem styrkti hana til ferðarinnar. Hinir gestirnir afhentu einnig fána síns klúbbs, en þau eru öll frá sitt hverjum Rótarýklúbbnum í umdæmi 9780 í Ástralíu.                          Ástralir afhenda forseta Rótarýfána