Fréttir
  • Guðmundur Steingrímsson

20.9.2011

Á Rótarýfundinum 20. september var Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður, fyrirlesari og Bragi Mikaelsson flutti 3ja mínútna erindi.

Í upphafi fundar las forseti bréf frá Sigurði B Ringsted þar sem hann sagði sig úr klúbbnum.

3ja mínútna erindi flutti Bragi Mikaelsson og fjallaði hann um umhverfisvernd og gerði að umtalsefni laxveiði og veiðarfæri til þeirra hluta með tilliti til umhverfisverndar.

Magnús Már Harðarson, forseti kynnti Guðmund Steingrímsson alþingismann. Hann er fæddur 1972, lauk prófi í heimspeki og íslensku frá HÍ 1995 og mastersgráðu í heimspeki frá Uppsölum 1998 og Oxford 2001 en stundar nú nám í hagfræði við HÍ. Hann er kvæntur Alexíu Björgu Jóhannesdóttur og eiga þau 1 barn.

Í upphafi máls síns rakti Guðmundur nám sitt í hagfræði sem hann er hálfnaður með og er því hagfræðilegur hálfviti að eigin sögn!
Þá rakti hann ástæður úrsagnar úr Framsóknarflokknum sem hann átti ekki lengur samleið með. Einnig er að hans mati og margra annarra að hans sögn tómarúm í ísl. pólitík. Pólitík á alþingi er ekki í takt við skoðanir almennings.

Nýr flokkur á að vera grænn og umhverfissinnaður. Það er í takt við það sem almennt er að gerast í heiminum. Þá ræddi hann sem dæmi stefnu Landsvirkjunar um umhverfisvæna orku og sölu á henni.

Að mati Guðmundar er enginn frjálslyndur miðjuflokkur á Íslandi. Verkefnið er að skapa fjölbreytt umhverfi atvinnuskapandi verkefna á grundvelli almannahagsmuna.

Þessi hugsun er grunnur Evrópusambandsins og frjálslyndur flokkur á að vera vettvangur slíkrar umræðu. Taldi hann brýna nauðsyn til að taka upp nánara samstarf við aðrar þjóðir ekki síst í gjaldeyrismálum. Þá nefndi hann lýðræðisumbætur sem eina stoð undir frjálslyndan flokk. Taldi hann að stjórnlagaráð hefði skilað góðu verki með grunni að nýrri stjórnarskrá.

Að síðustu lagði hann áherslu á að hægt væri að stunda pólitík á annan hátt en gert í flokkunum í dag þar sem stjórnmál eru vettvangur hagsmuna og stéttarbaráttu. Grunnur flokkanna er lagður í allt öðru samfélagi en nú er. Þeim hefur ekki tekist að vinna sig út úr þessu umhverfi og hagsmunatengslum.