Fréttir
  • Reykjanesferð 10sept11

10.9.2011

Vel heppnuð ferð um Reykjanesið 10. september undir frábærri fararstjórn Jónatans Garðarssonar

Sjá einnig frásögn af Rótarýfundi 12. júlí s.l.

Reykjanes 10sept11-fólkið

18 Rótarýfélagar tóku þátt í ferðinni og að mökum, börnum og barnabörnum meðtöldum taldi hópurinn samtals 33 manns.

Kynning Jóns Emilssonar, formanns ferðanefndar, á fundi 12.7.2011.

Ferð um Reykjanes með góðum fararstjóra er nokkuð sem mig hefur lengi langað til að upplifa, og ég vona að það eigi við um fleiri hér í þessum hópi, en nú finnst mér tækifærið vera komið, því að ég hafði samband við mann sem heitir Jónatan Garðarsson sannkallaður alltmúligmann. Ég þekki manninn nánast ekkert, en ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi dag einn í fyrravetur, er við nokkrir Gildisskátar úr Kópavogi fengum hann til að koma á fund til okkar, sem við héldum í skátaskála uppi við Hvaleyrarvatn, skammt ofan við Hafnarfjörð. Hann var fenginn til að fræða okkur um allar þær náttúruperlur og gersemar sem þarna er að finna á mjög stóru svæði, og allar þær fjölmörgu gönguleiðir sem eru þarna um allt. Þessi fundur líður seint eða aldrei úr minni. Maðurinn er bara þvílíkt fróður um alla skapaða hluti, Jarðfræðina og söguna, langt aftur í aldir, og svo segir hann svo dæmalaust skemmtilega frá.

Er ég náði sambandi við hann nú fyrir stuttu og falaðist eftir því við hann hvort að hann gæti hugsað sér að fara með okkur í dagsferð, sem fararstjóri um Reykjanes, og jafnvel að mæta sem fyrirlesari á næsta fundi hjá okkur og kynna lauslega hugsanlega tilhögun slíkrar ferðar. Hann brást við eins og sönnum fyrrverandi Rótarý manni sæmir og sagði bara að þetta væri alveg guðvel komið.

Mér er það sönn ánægja að kynna hér í dag hinn fjölhæfa Jónatan Garðarsson. : Jónatan er fæddur og uppalinn Hafnfirðingur, en rekur ættir sínar til Snæfellsness og Siglufjarðar. Hann hefur fengist við leiðsögn í gegnum tíðina og seinustu árin einbeitt sér að nærumhverfi höfuðborgarinnar, einkum Reykjanesskaganum. Þá hefur hann samið greinar um áhugaverðar gönguslóðir sem hafa birst í tímaritum. Jónatan hefur starfað við hljómplötuútgáfu og fjölmiðla um áratuga skeið og séð um útvarps- og sjónvarpsþætti um tónlist og menningu. Þá hefur hann skrifað fjölda greina um tónlistarmál, einkum dægurtónlist og er höfundur fræðibókar um tónlist.

Jónatan er mikill félagsmálamaður og sem stendur er hann formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, er stjórnarmaður í Hraunavinum og á sæti í úthlutunarnefnd Loftbrúar, sem hefur það að markmiði að styðja tónlistarfólk til markaðssóknar á erlendum vettvangi. Hann hefur einnig verið í nefndum og ráðum sem tengjast skipulags-, umhverfis- og tónlistarmálum og var um tíma félagsmaður í Rótarýhreyfingunni.