Jóhann Árnason er golfmeistari Rótarýklúbbs Kópavogs 2011. Sveit Rótarýklúbbsins Borga sigraði naumlega í keppni á milli Rótarýklúbbanna í Kópavogi, sem haldin var í fyrsta sinn.
Frá árinu 1998 hefur árlegt golfmót innan klúbbsins verið fastur liður í félagsstarfinu. Í leikslok er golfmeistari Rótarýklúbbs Kópavogs krýndur og fær til varðveislu farandbikar, sem Stefán Pálsson gaf klúbbnum.
Nú í sumar var ákveðið að samhliða yrði efnt til golfkeppni á milli Rótarýklúbbs Kópavogs og Rótarýklúbbsins Borga, þar sem fjórir kylfingar úr hvorum klúbbi mynduðu sveit. Þriðja Rótarýklúbbnum í Kópavogi, Þinghóli, var boðið að vera með, en þeir sáu sér ekki fært að vera með að þessu sinni.
Keppnin fór fram 8. september á Leirdalsvelli, sem er 18 holu völlur hjá GKG, Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Þetta var punktamót þar sem tekið var tillit til forgjafar leikmanna svo að sem flestir gætu tekið þátt og haft möguleika á að sigra. Leikurinn hófst kl. 14 og lauk um kl. 18:30 með mat.
Í keppninni um Stefánsbikarinn og titilinn golfmeistari Rótarýklúbbs Kópavogs sigraði Jóhann Árnason. Næstu sæti skipuðu Valur Þórarinsson, Rögnvaldur Jónsson og Kristófer Þorleifsson og skipuðu þeir fjórir því sveitina, sem keppti við Rótarýklúbbinn Borgir.
Makar félaga í Rótarýklúbbi Kópavogs keppa um sérstök verðlaun og sigraði að þessu sinni Sigríður Magnúsdóttir, maki Kristófers Þorleifssonar. Í öðru sæti varð Hafdís Karlsdóttir, maki Jóhanns Árnasonar og og í þriðja sæti varð Kristín S.R. Guðmundsdóttir, maki Jóns Ögmundssonar.
Verðlaunahafar úr Rótarýklúbbi Kópavogs: Aftari röð frá vinstri: Valur Þórarinsson, Jóhann Árnason og Rögnvaldur Jónsson. Fremri röð frá vinstri: Kristín S. R. Guðmundsdóttir, Sigríður Magnúsdóttir og Hafdís Karlsdóttir.
Þátttaka í golfmótinu var þokkaleg og mættu 7 félagar úr Rótarýklúbbi Kópavogs og 13 félagar úr Rótarýklúbbnum Borgum. Auk þess mættu 5 makar, þar af 4 frá Rótarýklúbbi Kópavogs.
Í keppninni á milli klúbbanna sigruðu Borgir með 6 punkta mun eða 125 punktum gegn 119 og eru Borgir því handhafar farandbikars, sem Landsbankinn gaf til keppninnar.
Þau sem skipuðu sigurlið Borga voru (talin frá vinstri): Kristján H. Ragnarsson, Gottfreð Árnason, Margrét Halldórsdóttir og Helgi Skúli Helgason.
Mótið gekk í alla staði mjög vel og öll umgjörð til fyrirmyndar. Samþykkt var að halda árlega slíkt golfmót.