Á Rótarýfundi 30. ágúst voru Jón Ásgeir Jónsson, Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar og Eyrún Engilbertsdóttir, skiptinemi á vegum Rótarý, fyrirlesarar dagsins.
Fundurinn var í umsjón Klúbbþjónustunefndar. Formaður hennar er Guðmundur Jens Þorvarðarson og kynnti hann fyrirlesara dagsins Jón Ásgeir Jónsson, Rkl Hafnarfjarðar en hann á sæti í æskulýðsnefnd umdæmisins. Jón Ásgeir er fæddur 1942, kvæntur Guðjónu Katarínusdóttur.
Með honum var Eyrún Engilbertsdóttir sem var skiptinemi í Mexicó á síðasta ári og nú nemandi í MH.
Jón Ásgeir gerði stuttu máli grein fyrir nemendaskiptum Rótarýhreyfingarinnar. Ísland tók fyrst þátt 1972. Fyrstu árin var tekið á móti 1 en sendir 2. Alls hafa farið um 170 skiptinemar en tekið hefur verið á móti 120. Í ár er tekið á móti 6 en sendir 4. Samskiptin hafa verið við 15 lönd. Kostnaður við nemendaskipti RI er um þriðjungur af því sem er hjá öðrum aðilum.
Þá tók til máls Eyrún Engilbertsdóttir og sagði frá dvöl í Mexicó á síðasta ári.. Hún hældi mjög aðstoð Rotaryfélaga í viðtökulandi sem m.a. kostaði spænskunám hennar. Umhverfi í borginni sem hún dvaldi í var talsvert frábrugðið því sem hún átti að venjast hér heima. Her og lögregla á götunum alvopnuð og ekki óalgengt að heyra skothríð.
Skiptinemarnir kynntu sitt heimaland í rótarýklúbbum en mismunandi var hvað hver klúbbur bauð sínum skiptinema á marga fundi. Vegna aðstæðna í landinu féllu niður 2 ferðir sem skipulagðar höfðu verið en ein 3ja vikna ferð var farin og var hún að hennar sögn mjög ánægjuleg. Á þessu ári eignaðist hún vini fyrir lífstíð. Mikill munur er á ýmsum þáttum samfélagins svo sem jólahaldi sem henni fannst lítið til koma. Þrátt fyrir ýmsar uppákomur var hún í heild mjög ánægð með dvölina og hvatti mjög til stuðnings við verkefnið.