Fréttir
  • Anna Steinsen

16.8.2011

Á Rótarýfundi 16. ágúst var Anna Steinsen, eigandi Næstu kynslóðar, fyrirlesari dagsins og ræddi um sjálfstraust barna og unglinga. Eiríkur Líndal flutti 3ja mínútna erindi.

3ja mínútna erindi flutti Eiríkur Líndal. Fjallaði hann um vegabréf og vandamál sem tengjast því þegar styttist í lokagildisdagsetningu. Víða eru reglur þannig að gildistími þarf að vera a.m.k. 4 mánuðir frá brottfarardegi.

Þá kvaddi sér hljóðs Haukur Ingibergsson en hans stofnun annast útgáfu vegabréfa. Hann sagði það góða reglu að huga að endurnýjun þegar ár væri eftir af gildistíma.

Fundurinn var í umsjón Æskulýðsnefndar. Formaður hennar er Sigurjón Sigurðsson og kynnti hann fyrirlesara dagsins Önnu Steinsen en hún mætir í forföllum mans síns Jóns Halldórssonar framkvæmdastjóra Næstu kynslóðar. Anna er fædd 1974, lauk BA prófi frá KHÍ 2007 í tómstunda- og félagsmálafræðum og er 4ra barna móðir.

Erindið nefnir Anna „Sjálfstraust barna og unglinga“ Í upphafi sagði hún frá sinni reynslu frá skólaárum í Versló þar sem hún var mjög óframfærin og átti mjög erfitt með að koma fram. Til að taka á því sótti hún námskeið hjá Dale Carnegie þar sem áhersla var lögð á þjálfun í mannlegum samskiptum, jákvæðni og persónulegri markmiðssetningu.

Í dag vinnur hún við kennslu á námskeiðum fyrir börn og unglinga frá 13 til 25 ára sem byggð eru á Dale Carnegie. Á þessum námskeiðum læra krakkarnir að tjá sig og koma fram. Það að þroska leiðtogahæfileika er að mati Önnu mjög mikilvægt. Þar ræddi hún bæði um að vera leiðtogi í eigin lífi og í samskiptum við félaga. Mikilvægi jákvæðni verður aldrei ofmetið. Að byggja upp sjálfstraust unglinga er mjög mikilvægt.

Á námskeiðunum er reynt að blanda saman í hóp unglingum með breytilegan bakgrunn, s.s. þá sem orðið hafa fyrir einelti, eru félagslega einangruð og venjulegum unglingum. Þannig ná þau að miðla misunandi reynslu og þroska og vinna úr því. Fjöldi á hverju námskeiði er á bilinu 20-30. Yfirleitt eru fleiri stelpur. Hver leiðbeinandi hefur 4 aðstoðarmenn á hverju námskeiði.

Næsta kynslóð er í samstarfi við öll sveitarfélögn á höfuðborgarsvæðinu nema Kópavogi. Að síðustu gerði Anna greini fyrir rannsókn sem farið hefur fram á árangri af þessum námskeiðum. Niðurstaða þessara rannsókna sýna mjög jákvæða niðurstöðu.