Fréttir
  • Magnús Björnsson 9ág11

9.8.2011

"Er breytinga að vænta í efnahagsstefnu Kínverja?" var heitið á erindi, sem Magnús Björnsson flutti á Rótarýfundi 9. ágúst. Guðmundur Jens Þorvarðarson flutti 3ja mínútna erindi. Reikningar klúbbsins fyrir síðasta starfsár voru lagðir fram og samþykktir.

Jón Emilsson, formaður ferðanefndar kynnti fyrirhugaða ferð um Reykjanes þann 10. september.

Ingólfur Antonsson kynnti árlegt golfmót klúbbsins þann 8 sept. kl 14:00. Rkl Borgir hefur skorað á klúbbinn og munu þessi tvö mót verða sameinuð í eitt.

Reikningar klúbbsins fyrir síðasta starfsár lagðir fram. Guðbergur Rúnarsson skýrði reikningana. Rekstrartekjur voru 1.914.405, rekstrargjöld 3.105.594. Tap ársins nam því 1.191.189. Skýrist þetta tap af kostnaði vegna afmælisárs og afmælisrits og tekjulækkun vegna fækkun félaga. Eignir námu 686.550 í árslok og eigið fé sömu fjárhæð þar sem skuldir eru engar. Reikningar samþykktir samhljóða án umræðu.

Guðmundur Jens Þorvarðarson flutti 3ja mínútna erindi og sagði frá gönguferð um Hellismannaleið. Þetta er 3ja daga ganga og að þremur mínútum liðnum var Guðmundur kominn þar í frásögninni að verið var að leggja upp frá áningastað fyrsta náttstaðar! Því verður framhald síðar.

Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar. Formaður hennar er Sigbjörn Jónsson en í forföllum hans kynnti Sævar Geirsson ræðumann dagsins, Magnús Björnsson. Magnús er fæddur á Blönduósi 1969, giftur Shi Xin. Hann er með prófgráður frá HÍ og háskólum í Frakklandi og Kína í tungumálum, stjórnmálafræði og fjölmiðlafræði.

Erindið nefnir Magnús „Er breytinga að vænta í efnahagsstefnu Kínverja.“ Meginefni erindisins er um þróun efnahagsstefnu kínverskra stjórnvalda, en hún byggir á 5 ára áætlunum að fordæmi Rússa. Gerði hann stuttlega grein fyrir sögu 5 ára áætlana en sú sem nú er í gildi er sú 12. í röðinni.

Kína virðist hafa komið vel út úr fjármálakreppu undanfarinna missera en glíma samt við verðbólgu og einnig fasteignabólu sem þó er svæðisbundin. Útflutningur hefur dregist saman vegna laskaðra vestrænna markaða. Þá er ýmislegt sem bendir til þess að breytingar séu í vændum á vinnumarkaði í Kína vegna þess að hægt hefur á flutningi fólks úr dreifbýli. Stefnt er að 7% hagvexti, atvinnuleysi undir 5%, laun hækki um 13% á ári og tvöfaldist á næstu 7 árum.

Meirihluti íbúa býr nú í þéttbýli í fyrsta skipti í sögu Kína. Þá er stefnt að því að tryggja ellilífeyri fyrir íbúa til sveita og 357 millj. borgarbúa. Markmið er að halda verðbólgu í skefjum, stórefla nýsköpun og fjárfestingar í henni með áherslu á græna orku. Markmið er að draga úr áhrifum erlendis frá bæði markaðslega og pólitískt. Þá er líklegt að þeir muni í auknum mæli flytja orkufrekna iðnað úr landi.

Mikill munur er á tekjum manna eftir búsetu eða allt að sjöfaldur. Til að jafna þennan mun er stefnt að hækkun lágmarkslauna. Í fyrsta skipti í sögu Kína stefnir í að þjónusta verði vegamest í þjóðarframleiðslu og fari fram úr iðnaði.

Framundan eru stjórnarskipti sem gæti haft áhrif á þróun mála og framkvæmd áætlunarinnar. Þá má gera ráð fyrir hækkandi verði á vörum frá Kína og almennt hækkandi vöruverði þar í landi sem er þá jákvætt fyrir útflutning frá Íslandi.