Fréttir
  • Guðmundur G. Þórarinsson

19.7.2011

Á Rótarýfundi 19. júlí flutti Guðmundur G. Þórarinsson erindi um hina fornu Lewis taflmenn. Þórir Ólafsson flutti 3ja mínútna erindi.

Þórir Ólafsson flutti 3ja mínútna erindi, sem fjallaði um 5 daga ferð um Vestfirði. Notaði hann í ferðinni sögukort sem kynnt var á fundi klúbbsins á síðasta ári og nýttist það vel ekki síst fyrir yngri kynslóðina í ferðinni.

Fundurinn var í umsjón Menningarmálanefndar. Kolbeinn Þór Bragason formaður nefndarinnar kynnti fyrirlesta dagsins, Guðmund G Þórarinsson verkfræðing, fyrrverandi alþingismann og fyrrum forseta Skáksambands Íslands.

Erindi Guðmundar fjallaði um Lewis taflmennina. Heitið biskup á taflborði er grundvallaratriði í kenningu Guðmundar um að hinir fornu Lewis-taflmenn séu hugsanlega íslenskir að uppruna, skornir út úr rostungstönnum í Skálholti í lok 11. aldar, en ekki norskir, frá Þrándheimi. Færði hann ýmis rök fyrir því að biskupsdæmið í Þrándheimi gæti ekki komið við sögu þar sem afstaða kirkjunnar hefði á þessum tíma verið mjög andstæð skákinni. Þessir merkilegu skák- og listmunir fundust grafnir í sand í Uig á eyjunni Lewis árið 1831. Þeir eru taldir meðal fimm merkustu gersema í eigu breska þjóðminjasafnsins og einnig þess skoska, þar sem 11 af 93 eru varðveittir. Í kenningu Guðmundar kemur fram að munirnir hafi hugsanlega verið skornir út af Margréti hinni högu og fleiri undir handarjaðri Páls biskups Jónssonar. Kenningar eru um að Margrét hin haga hafi skorið út biskupsstaf Páls Jónssonar sem fannst í kistu hans. Margrét var kona Þórðar prests í Skálholti í biskupstíð Páls. Svipmót Lewis-taflmannanna bendir til þess að þeir séu af norrænum uppruna, hrókarnir í berserkslíki og riddarinn á smáhesti og ekki hvað síst biskupinn, sem þar kemur til skjalanna í fyrsta sinn á skákborðinu, svo vitað sé, sem bendir til þess að þeir séu gerðir á biskupsstóli. Auk þess sem mörg önnur, bæði söguleg og málfræðileg rök hníga til þess að þeir séu íslenskir að uppruna. Má þar nefna verslunartengsl við Grænland. Til frekari stuðnings má nefna að nafn fundarstaðarins, Uig, er dregið af íslenska orðinu vík og þar skammt undan er staðurinn Islivik sem gæti verið dregið af nafninu Íslendingavík.

Guðmundur setti kenningu sína fram árið 2009 en erlendis var hún kynnt 2010. Tenging taflmannanna við Þrándheim helgast af því að þar hafi fundist brot af taflmanni en í Noregi heiti biskup á taflborði hlaupari. Því sé undarlegt að Norðmenn tálgi hann í biskupslíki. Biskupsheitið sé hins vegar í enskri tungu fyrir íslensk áhrif enda kemur þetta nafn ekki inn í enska tungu fyrr en á 15. öld. Ef þessi kenning er rétt þarf að endurmeta söguna, menning hafi verið á mun hærra stigi hér á landi á Sturlungaöld en talið hefur verið til þessa.

Tveir samstúdentar Guðmundar úr Menntaskólanum í Reykjavík frá árinu 1959 eru félagar í Rótarýklúbbi Kópavogs, þeir Guðmundur Ólafsson og Kristmundur Halldórsson. Þeir félagarnir voru að vonum kampakátir að fundi loknum. (Kristmundur stendur á milli þeirra nafnanna)

Guðmundur hittir gamla skólafélaga