Á Rótarýfundi 28. júní var Gísli Örn Bragason, jarðfræðingur, fyrirlesari dagsins og fræddi fundarmenn um Rathlaup, sem er ný íþróttagrein hér á landi og kallast Orienteering á erlendum málum. Werner Rasmusson flutti 3ja mínútna erindi.
Werner fjallaði um fyrstu bílakaup sín í tilefni þess að nýlega hafi Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar haldið því fram að það væri jafn erfitt að kaupa bíl í dag og 1960. Werner keypti 1958 Morris árg. 1946 á 30 þkr. sem voru nálægt því 4 mánaðarlaun lyfjafræðings. Bíllinn var skoðaður en á daginn kom að hann var handbremsulaus. Þrátt fyrir að erfitt væri að fá varahluti tókst það fyrir rest og ók Werner honum í þrjú ár.
Fundurinn var í umsjón æskulýðsnefndar og kynnti formaður hennar Jón Ögmundsson fyrirlesara dagsins Gísla Örn Bragason (Mikaelssonar). Gísli er 27 ára. Hann lauk prófi frá MK 1994 og síðan BS í jarðfræði og er nú í meistaranámi í jarðfræði við HÍ. Gísli er einn af stofnendum Rathlaupsfélagsins Heklu.
Rathlaup er íþróttagrein sem á rætur sínar að rekja til heræfinga í norska og sænska hernum. Íþróttagreinin er iðkuð víða en nýtur hvað mestra vinsælda á norðurlöndunum. Íþróttagreinin er viðurkennd grein innan ÍSÍ.
Í greininni er einungis stuðst við sérstök landakort og áttavita. Æskilegt er að vera á hlaupaskóm sem henta við breytilegar aðstæður. Eftir að tekin var upp rafræn merking í skráningu á viðkomustöðum varð öll úrvinnsla auðveldari.
Fyrsta hlaupakortið sem gert hér á landi var 1977 af Hallormsstað. Svo liðu 20 ár og þá voru gerð 5 kort í Reykjavík og nágrenni. Síðan 2009 voru gerð tvö ný kort og 2010 var svo Rathlaupsfélagi Hekla stofnað.
Alþjóðleg mót eru mörg og má þar nefna Jukola boðhlaupið í Finnlandi og O-Ringen í Svíþjóð sem er 5 daga fjölskylduhátíð.