Þorbjörn Jensson er Eldhugi Kópavogs 2011
Rótarýklúbbur Kópavogs hélt upp á 50 ára afmæli sitt 6. febrúar 2011. Einn af hápunktum hátíðarinnar var að klúbburinn útnefndi í 15. sinn Eldhuga Kópavogs og hlaut þorbjörn Jensson þessa heiðursnafnbót fyrir störf hans að málefnum ungs fólks á aldrinum 16-24 ára.
Benjamín Magnússon, formaður viðurkenningarnefndar, tilkynnti að Þorbjörn Jensson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar hefði verið tilnefndur Eldhugi Kópavogs 2011, fyrir störf hans að málefnum ungs fólks á aldrinum 16-24 ára.
Hér má sjá Eldhuga Kópavogs 2011 standa á milli Helga Laxdal, forseta og Benjamíns Magnússonar, formanns viðurkenningarnefndar
Árið 2001 var Þorbjörn ráðinn forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, en verkefnið þar var að byggja upp vinnusetur fyrir ungt fólk, sem stendur á krossgötum í lífinu. Fjölsmiðjan var í upphafi tilraunaverkefni þar sem ekki var vitað um þörfina fyrir slíkt úrræði.
Í dag 10 árum síðar eru 90 nemar og 10 starfsmenn í Fjölsmiðjunni, þörfin er gríðarleg og uppbyggingin er enn í fullum gangi.
Fjölsmiðjan var til húsa að Kópavogsbraut 5-7 frá stofnun til ársins 2010, en er starfrækt nú í Víkurhvarfi 2 í Kópavogi.
Helgi Laxdal afhenti Þorbirni Jenssyni verðlaunagrip, sem er hannaður af listakonuninni Ingu Elínu Kristinsdóttur.
Þorbjörn flutti síðan ávarp þar sem fram kom m.a. að markmiðið væri að gera nema Fjölsmiðjunnar að góðum starfsmönnum sem hvaða fyrirtæki sem er gæti verið stolt af. Það sem þessir krakkar þyrftu fyrst og fremst á að halda væri sjálfstraust. Þegar þau hefðu fengið það væri þeim flestir vegir færir. Þau kæmu niðurlút og með lélega sjálfsmynd, segjast ekkert geta og ekkert kunna, sem væri alrangt, því öll hefðu þau hæfileika og kunnáttu sem hægt vær að vinna með. Þau þyrftu að tileinka sér sjálfsaga og mæta á réttum tíma til vinnu, læra samskipti við aðra á vinnustaðnum og læra að taka leiðsögn. Lögð væri áherslu á að vinna með þeim, hér eru engir verkstjórar í þeim skilningi, við vinnum öll saman og berum virðingu hvert fyrir öðru. Þetta væri lykilatriði. Þegar þetta hefði tekist væru þau tilbúin að takast á við lífið að nýju. Um 80% þeirra krakka sem hefðu farið í gegn hefðu náð þeim árangri að geta í kjölfarið farið að gera það sem hugur þeirra stæði til.