Skýrsla forseta, Hauks Ingibergssonar
Stjórnarskiptafundur 6. júlí 2010
Rótarýklúbbur Kópavogs Skýrsla forseta 6. júlí 2010. Góðir félagar. Enn eitt starfsár Rótarýklúbbs Kópavogs er á enda runnið og stjórn gerir hér grein fyrir störfum sínum. Skýrslugjöfin fer þannig fram að eftir skýrslu forseta mun ritari gera grein fyrir þeim málefnum sem undir hann falla svo sem félagaskrá og þróun félagafjölda, mætingu félagsmanna auk þess sem hann gerir grein fyrir þeirri rafrænu þróun sem á sér stað í félagsstrfi Rótarý. Þessu næst gerir stallari grein fyrir eigum klúbbsins að frátöldum peningalegum eignum sbr 3.4. og 4.2. gr. laga klúbbsins og gjaldkeri leggur fram ársreikning klúbbsins og fer yfir efni hans. Að því loknu opnar forseti fyrir umræður og afhendir viðtakandi forseta forsetamerkið að umræðum loknum. Rótarýklúbbur Kópavogs var stofnaður 6. febrúar 1961 og var fimmtándi Rótarýklúbburinn sem stofnaður var hér á landi. Stofnfélagar voru 24 og var Rótarýklúbbur Reykjavíkur móðurklúbbur. Hinn 10. október sama ár fékk klúbburinn fullgildingu Rotary International. Saga klúbbsins spanna því senn hálfa öld og sú bók sem nú er í smíðum og gefin verður út á því starfsári sem hefst í dag, lýsir farsælu og mikilvægu starfi fyrir okkur félagana og Kópavog sem samfélag. Stjórnkerfi Rótarý er eins og perlufesti þar sem hvert ár er ein perla, einn áfangi á langri leið þar sem ný stjórn fær árlega að spreita sig. Sú stjórn sem hér situr er nú að ljúka störfum. Megináhersla í starfinu hefur verið að hafa umræðuefnin á hinum vikulegu fundum okkar áhugaverð og fá fyrirlesara sem fróðlegt og gaman er að hlusta á. Það er gert út frá þeirri trú að hlutverk Rótarý sé ekki síst að veita félögum tækifæri til að koma fróðari af hverjum fundi, með nýja sýn á menn og málefni enda má telja víst að aukin þekking og skilningur á mönnum og málefnum sé mikilvæg til að auka velvild og vinarhug. Tiltölulega jöfn og stöðug fundarsókn félaganna gæti verið vísbending um að tekist hafi að vera með áhugaverð fundarefni. Tekið var upp á þeirri nýjung að taka sama málefnið fyrir á fleiri en einum fundi og var markmiðið að dýpkva umræðuna og fá fram fjölbreytt sjónarmið. Á starfsárinu má segja að klúbburinn hafi rótfest sig á nýjum samastað hér í Veisluturninum. Ekki er aðeins að þetta sé glæsilegasta fundarstaða Rótarýklúbbs á Íslandi heldur hefur starfsfólkið lært á starfsemi okkar og fyrirkomulag og lagað þjónustuna að okkar þörfum. Það fyrirkomulag að menn nái sér sjálfir í súpuna en aðaldiskurinn sé borinn á borð hefur reynst vera hentugt fyrirkomulag sem gefur svöngum mönnum færi á að fá sér smávegis strax og komið er á fundarstað auk þess sem skömmtun starfsmanns á aðaldiskinn er einfaldara fyrirkomulag en að bera matinn inn á fötum og félagsmaðurinn skammti sér sjálfur. Þrjá aðra kosti má auk þess nefna: að geta lagt í bílastæðahúsi og þurfa ekki út fyrir hússins dyr til að komast í fundarsalinn, að ekki þarf að leiðbeina fyrirlesurum um hvar fundarstaðurinn er því allir þekkja turninn og síðast en ekki síst er síst dýrara að vera hér en á fyrri stöðum ef allt er talið. Yfirstandandi efnahagsáföll og þjóðfélagsleg upplausn hafa áhjákvæmilega haft sín áhrif á klúbbstarfið. Það hefur einkum komið fram í tvennu; Annars vegar eru félagar sem misst hafa vinnu eða lent í efnahagserfiðleikum af öðrum ástæðum og hafa ekki lengur efni á að vera meðlimir eða taka þátt í starfinu. Hins vegar eru félagar sem eru í vinnu en hafa annað hvort ekki lengur svigrúm til að fara úr vinnu í tvo klukkutíma á hverjum þriðjudegi til að sækja fund, þora ekki að fara af vinnustað af ótta við uppsögn eða að vinnuálagið er einfaldlega það mikið að menn geta ekki tekið þennan tíma frá. Báðar þessar ástæður gera það einnig erfiðara að fá nýja félaga í klúbbinn. Viðbótarástæða þess að félgögum fjölgar ekki í klúbbnum er svo auðvitað sú að tvisvar sinnum á 10 árum hafa nýjir Rótarýklúbbar verið stofnaðir hér í bænum og í báðum tilvikum fór nokkur hópur félaga úr þessum klúbbi yfir í hina nýju klúbba. Ætla má að á annað hundrað manns sé í Rótarýklúbbunum í Kópavogi sem stigu sín fyrstu Rótarýspor í þessum klúbbi. Ein af rökunum fyrir stofnun þessara nýju klúbba var að í Kópavogi þyrfti að vera meira val með fundartíma Rótarýklúbba þannig að hentaði atvinnu manna og lífsháttum. Rótarý International og þar með Rótarýhreyfingin hefir lagt áherslu á að tölvuvæða alla skráningu upplýsinga sem varða starf hreyfingarinnar, varðveita upplýsingar rafrænt og miðla þeim á netinu. Þessi rafræna þróun er án efa mjög mikilvæg fyrir höfuðstöðvar hreyfingarinnar og skapar nýja möguleika í flestu tilliti, einnig fyrir hvern og einn klúbb og hvern og einn félagsmann. Að hinu verður að gæta að í félagsstarfi, eins og allri annarri starfsemi er meira en að segja það að fara úr pappírsheimi yfir í rafrænan heim. Það er ekki aðeins mikil vinna heldur krefst einnig breytinga á viðhorfum, þekkinu á tölvutækni og netheimum. Á þessu ári hefur þessi klúbbur reynt að feta sig djarflega á hinni rafrænu slóð og mun ritari gera betri grein fyrir því í sinni skýrslu.