Fréttir

6.7.2009

Hvernig varð Seðlabankinn gjaldþrota?

Þú færð að vita meira á fundi Rótarýklúbbs Kópavogs 7. júlí kl. 12:15

Spurningunni um gjaldþrot Seðlabankans og eflaust mörgum fleirum ætlar Ólafur Arnarson að svara á fundi Rótarýklúbbs Kópavogs á morgun, 7. júlí.  Í umfjöllun um bókina segir Ólafur m.a.: ,,Á haustdögum horfðum við á stóru bankana þrjá hrynja rétt eins og fúnir spítnakofar hefðu orðið fyrir jarðýtu. Síðan þá höfum við þurft að horfa á eftir þremur öðrum bönkum. Þannig eru fallnir sex íslenskir bankar; Landsbankinn, Glitnir, Kaupþing, Straumur, Sparisjóðabankinn og Spron. Það er mismikil eftirsjá eftir þessum bönkum. Sumir þeirra voru klárlega komnir í þrot og var ekki viðbjargandi. Öðrum virðist hafa verið synjað um fyrirgreiðslu, sem einhvers staðar og einhvern tíma hefði þótt eðlileg. Kaupþing var keyrt í þrot með ofbeldisverknaði breskra stjórnvalda.

Í allri þessari umræðu gleymist að sjöundi íslenski bankinn fór í þrot. Íslenska ríkisstjórnin ákvað hins vegar að bjarga honum, enda kannski ekki margir góðir kostir aðrir. Það gleymist oft að Seðlabanki Íslands varð tæknilega gjaldþrota við hrun bankakerfisins síðastliðið haust. Hann hafði stundað glæfralega útlánastarfsemi, sem leiddi hann í þrot.

Gjaldþrot Seðlabankans var ekkert smágjaldþrot. Bankinn tapaði nálega 350 milljörðum á útlánum sínum en átti fyrir eigið fé upp á einhverja 90 milljarða þannig að gatið var stórt. Íslenska ríkið þurfti að koma bankanum til hjálpar með því að kaupa ónýtar eignir af honum og gefa út skuldabréf upp á 270 milljarða á móti. Þetta tap fellur óskipt á ríkissjóð Íslands og þar með íslenska skattgreiðendur. Óvíst er samt hvort þetta dugar til að fjármagna Seðlabankann með viðunandi hætti.”