Fréttir

25.5.2009

Rótarýklúbbur Kópavogs á söguslóðir Laxdælu

Ferðanefnd klúbbsins stendur fyrir ferð á söguslóðir Laxdælu laugardaginn 13. júní nk.

Ferðanefnd Rótarýklúbbs Kópavogs stendur fyrir ferð á söguslóðir Laxdælu laugardaginn 13. júní nk. og verður farið með rútu frá Turninum við Smáralind kl. 09.00 stundvíslega. Ferðin kostar 6.000 krónur pr. mann. Frá Kópavogi verður ekið sem leið liggur vestur yfir Bröttubrekku í Dalina.

11:00 - Eiríksstaðir. Reist hefur verið tilgátuhús að Eiríksstöðum  og var lögð áhersla á að styðjast við rústirnar, rannsóknir og fornt verklag. Skömmu áður verður heilsað upp á Eddu og Rögnvald Jónsson rótarýfélaga.

12:15 – Búðardalur, Leifsbúð. Boðið upp á súpu og brauð. Í Leifsbúð er Vínalands- og landfundasýning.

Úr Laxárdalnum liggur leiðin vestur og ekið fyrir ,,Strandir”, þ.e. Hvammssveit, Fellsströnd, Skarðsströnd og Saurbæ.

14:15 – Krosshólaleiti. Þar var bænastaður landnámskonunnar Unnar (Auðar) djúpúðgu er bjó að Hvammi. Þarna verður áð ef tími og veður leyfa.

15:00 – Veiðihúsið Karlaksstöðum. Stendur rétt vestan Staðarfells og skammt frá minnismerki um Bjarna frá Vogi. Þar taka á móti hópnum Alda og Jón Ingi Ragnarsson sem er fyrrverandi rótarýfélagi. Farið að útsýnisskífunni að Klofningi.

16:00 – Skarð. Gengið verður í kirkju, en að Skarði bjuggu Björn Þorleifsson og Ólöf ríka Loftsdóttir.

17:15 – Skriðuland í Saurbæ. Stoppað við kaupfélagið og þar gefst tækifæri til að kaupa sælgæti og sinna öðrum þörfum.

18:30 – Laugar í Sælingsdal. Snæddur kvöldverður. Á Laugum bjó forðum daga Guðrún Ósvífursdóttir. Hún bjó ásamt Bolla hinu megin í dalnum í Sælingsdalstungu. Þar bjó síðar Snorri goði. Að Laugum var heimavistarskóli sem rekinn er nú sem sumarhótel. Þarna er Byggðasafn Dalamanna.

21:00 – Brottför frá Laugum. Keyrt í bæinn og er áætlaður komutími kl. 23:00.

 

Úr Laxdæla sögu

 

Einna þekktust þeirra sem getið er í Laxdæla sögu er Guðrún Ósvífursdóttir. Þannig segir frá henni er líða tók að ævikvöldinu:

,,Nú tekur Guðrún mjög að eldast og lifði við slíka harma sem nú var frá sagt um hríð. Hún var fyrst nunna á Íslandi og einsetukona. Er það og almæli að Guðrún hafi verið göfgust jafnborinna kvenna hér á landi. Frá því er sagt eitthvert sinn að Bolli kom til Helgafells því að Guðrúnu þótti ávallt gott er hann kom að finna hana. Bolli sat hjá móður sinni löngum og varð þeim margt talað.

Þá mælti Bolli: "Muntu segja mér það móðir að mér er forvitni á að vita? Hverjum hefir þú manni mest unnt?"

Guðrún svarar: "Þorkell var maður ríkastur og höfðingi mestur en engi var maður gervilegri en Bolli og albetur að sér. Þórður Ingunnarson var maður þeirra vitrastur og lagamaður mestur. Þorvalds get eg að engu."

Þá segir Bolli: "Skil eg þetta gerla hvað þú segir mér frá því hversu hverjum var farið bænda þinna en hitt verður enn ekki sagt hverjum þú unnir mest. Þarftu nú ekki að leyna því lengur."

Guðrún svarar: "Fast skorar þú þetta sonur minn," segir Guðrún, "en ef eg skal það nokkurum segja þá mun eg þig helst velja til þess."

Bolli bað hana svo gera.

Þá mælti Guðrún: "Þeim var eg verst er eg unni mest."

"Það hyggjum vér," svarar Bolli, "að nú sé sagt alleinarðlega" og kvað hana vel hafa gert er hún sagði þetta er hann forvitnaði.

Guðrún varð gömul kona og er það sögn manna að hún yrði sjónlaus. Guðrún andaðist að Helgafelli og þar hvílir hún.”