Finnst nýtanleg olía við Ísland?
Ragnar Sigbjörnsson prófessor heldur erindi á fundi klúbbsins 12. maí nk. sem ber heitið: ,,Olía við Ísland?” Eflaust mun margran fýsa að fræðast nánar um það hvort nýtanlega olíu sé að finna hér við land og erindi Ragnars mun vafalaust upplýsa ýmislegt um það.
Vísbendingar hafi komið fram á undanförnum árum um að meginlandsskjöldurinn, sem talinn er geyma olíu á Drekasvæðinu, teygi sig sunnar og nær Íslandi og jafnvel undir Ísland. Nýjar jarðfræðirannsóknir benda til að líkur séu á að olía kunni að finnast mun nær austurströnd Íslands en áður hefur verið talið og jafnvel undir Austfjörðum. Alþjóðleg olíufélög sýna Íslandi aukinn áhuga vegna nýrra vísindakenninga um tengsl olíu og eldvirkra svæða og hafa sex alþjóðleg olíufélög nýlega sent sérfræðinga til rannsókna á Íslandi.
Líkur eru taldar á olíu nær Íslandi og jafnvel undir landinu, þar sem sérfræðingar telja líklegt að olía finnist í Færeyjum og því sé mjög líklegt að það sama gildi um Ísland. Úr því fæst ekki skorið nema með rannsóknum. Norskir olíujarðfræðingar, sem gerst þekkja til Drekasvæðisins, telja að það verði hinn næsti "Norðursjór," svo miklar séu auðlindirnir þar, og spá því að fyrsta olían náist þar upp á næstu þremur til fimm árum. En hugsanlega geta Íslendingar fundið olíu ennþá nær Íslandi.
Þá eru að fást nýjar jákvæðar vísbendingar með rannsókn Bryndísar Brandsdóttur, jarðeðlisfræðings við Háskóla Íslands, á hafsvæðinu milli Kolbeinseyjar og Ægishryggs. Sömu sögu er að segja af rannsókn Olgeirs Sigmarssonar, jarðefnafræðings við Háskóla Íslands, á fjallinu Hvítserk á Austurlandi. Þar hafa fundist zirkon-krystallar, sem eru miklu eldri en elsta berg á Íslandi. Þeir eru það gamlir að þeir hljóta að vera úr meginlandsskildinum. Sterkar líkur eru því á að meginlandsskjöldurinn sé undir Borgarfirði eystra og ef hann sé samhangandi við Drekasvæðið ætti hann að teygja sig alla leið þangað.