Saga klúbbsins

Rótarýklúbbur Húsavíkur

kafli úr Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára

Fimmtudaginn 6. júlí 1939 voru nokkrir gestir saman komnir að heimili sr. Friðriks A. Friðrikssonar á Húsavík. Einn þeirra var þáverandi umdæmisstjóri 75. rótarýumdæmis (Íslands og Danmerkur) T. C. Thomsen. Með honum voru í för nokkrir embættismenn Rótarýklúbbs Reykjavíkur, þeir Benedikt Gröndal verkfræðingur, Carl Olsen stórkaupmaður og klúbbforseti, svo og Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri. En Steingrímur og sr. Friðrik voru alda vinir og mun það hafa átt sinn þátt í, að þessir menn voru komnir um svo langan veg til Húsavíkur. En erindi þeirra félaga var að kynna rótarýhreyfinguna og kanna jafnframt, hvort aðstæður væru fyrir hendi að stofna klúbb á Húsavík.

Á umræddum fundi voru mættir 8 Húsvíkingar og þeim falið að athuga þetta mál nánar. Á næstu vikum voru send ýmis gögn þar að lútandi.

Arið 1940, sunnudaginn 18. febrúar, samþykktu 7 Húsvíkingar að stofna "Rótarýklúbb í myndun", eins og það var orðað, og skyldi slíkt vara um eins árs skeið, uns séð yrði, hvort annað og meira gæti af orðið. Stjórn var kosin, og hana skipuðu:

Friðrik A. Friðriksson forseti,
Björn Jósefsson varaforseti,
Einar J. Reynis ritari,
Þórarinn Stefánsson gjaldkeri,
Einar Guðjohnsen stallari.

Á þessu frumskeiði klúbbsins var lítt fylgt reglum um fundardaga, liðu jafnvel mánuðir á milli. Öll árin, sem klúbburinn var í myndun, fóru fundir fram til skiptis á heimilum félagsmanna. Voru 100 % fundir ekki ýkja sjaldgæfir á þeirri tíð.

Að ári liðnu blés ekki nægilega byrlega um klúbbstofnun sökum fámennis. Þorpið taldi um 1000 íbúa, en samkvæmt ýmsu í rótarýplöggum þótti klúbbstofnun óráðleg, nema þar sem um 5000 íbúar dveldu. Félagar skyldu vera fæstir 15. Var nú málinu skotið til Rótarýklúbbs Reykjavíkur, sem kvað upp þann úrskurð að athuguðu máli, að ekki væri enn fullreynt. Var því enn haldið áfram með sama sniði um sinn. Árið 1943 heimsóttu flestir félagar Rótarýklúbbs Akureyrar Húsavíkurklúbbinn honum til mikillar uppörvunar.

Allnokkrir nýir félagar bættust klúbbnum á árinu 1944, svo að þeir voru orðnir 16, þegar klúbburinn hlaut fullgildingu 20. nóvember það ár. Var stofnbréfið afhent 1. júlí 1945 af Hallgrími Benediktssyni stór-kaupmanni, og hlaut klúbburinn númerið 5856 og var 5. íslenzki klúbburinn. Jafnframt afhendingunni var fulltrúaþing haldið á Húsavík, og þar voru komnir margir góðir gestir úr rótarýhreyfingunni.

Færðist nú meira fjör í klúbbinn. Tilbreytni óx um erindaflutning. Gestum fjölgaði á fundum. Í janúar 1945 var tekið að halda fundi í húsakynnum Kaupfélags Þingeyinga, síðan í funda- og veitingahúsinu Hlöðufelli og allnokkur síðustu ár að Hótel Húsavík. Allmörg ár framan af sáu klúbbfélagar um veitingar til skiptis, og önnuðust konur þeirra þann þátt. Fundir hafa ætíð verið haldnir að kvöldi og á mánudögum jafnan.

Höfuðstarf klúbbsins hefir löngum verið fundahaldið með margvíslegum erindum, myndasýningum o. fl. Í ársbyrjun 1951 tók klúbburinn að safna almennum tíðindum bæjar og héraðs og skrásetja þau vikulega og er kallað vikull (sbr. annáll). Semja klúbbfélagar viku linn til skiptis eftir stafrófsröð og flytja á fundum. Eru þeir allir varðveittir frá upphafi og orðið mikið heimildasafn. Mánaðarbréf gaf klúbburinn út um skeið. Klúbburinn hefir lagt ýmsum málum lið ýmist einn eða í félagi við aðra. Um árabil hafa klúbbfélagar gróðursett trjáplöntur í nágrenni Húsavíkur, og unnið hefur verið við að koma á fót skrúðgarði á Húsavík. Sjálfboðaliðsvinna hefir verið innt af hendi við byggingu dvalarheimilis aldraðra og klúbburinn tekið þátt í kaupum á lækningatækjum, svo og kaupum á snjóbíl. Með svipuðum hætti var ráðist í kaup á kirkjuklukkum, svo mætti fleira nefna.

Árshátíðar hafa verið haldnar, konukvöld o. fl. Ýmis framfaramál bæjarins hafa verið rædd á fundum og félagar með þeim hætti beint og óbeint getað beitt sér fyrir framgangi þeirra á öðrum stöðum. Kynningin og félagsskapurinn hefir verið þungamiðjan í starfi klúbbsins, og leikur lítill vafi á, að þar hefir hann gegnt mikilsverðu hlutverki, ekki síst þegar úfar hafa risið með mönnum, t. d. um kosningar. Þar hefir félagsskapurinn orðið eins og græðandi lyf. Árið 1953 stóð klúbburinn fyrir umdæmisþingi að Reykjahlíð í Mývatnssveit. Sr. Friðrik A. Friðriksson var umdæmisstjóri 1952 - 1953.

Rótarýklúbbur Húsavíkur hefir átt gott samband við ýmsa klúbba og félög. Gagnkvæmar heimsóknir hafa átt sér stað milli nágrannaklúbba á Akureyri, Ólafsfirði, Sauðárkróki og Siglufirði. Sameiginlegar árshátíðir hafa verið haldnar hjá tveim eða fleiri klúbbum. Við heimsóknir hafa gestil stundum gist á heimilum heimamanna og góð tengsl og kynni tekist.

Um skeið var Rótarýsöngur á hverjum fundi. Einn af félögunum og máttarstoð lengi, sr. Friðrik A. Friðriksson, samdi lög, orti ljóð og stjórnaði söng. Fundarsókn hefir eðlilega verið misgóð. Sigurður Pétur Björnsson, sem enn er félagi, gekk í klúbbinn 1944 og hefir haft 100% mætingu öll árin nema tvö. Lengst af hefir hið talaða orð verið ríkur þáttur í klúbbstarfinu. Þar hafa ýmsir félagar fengið mikilvæga reynslu við að koma fram og tjá sig í ræðustól. Gildi slíks starfs er auðvitað alltaf persónubundið, eins og raunar má segja um margt af starfi Rotary, þar sem staðtölum verður sjaldnast við komið.

Sigurjón Jóhannesson