Verðlaunasjóður Rkl Görðum

Verðlaunasjóður

Skipulagsskrá

Sipulagsskrá verðlaunasjóðs Rótarýklúbbsins Görðum


1. gr.

Nafn sjóðsins er Verðlaunasjóður Rótarýklúbbsins Görðum og er hann eign klúbbsins.

2. gr.

Tilgangur sjóðsins er að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi eða nýstárlegt framtak, sem unnið er á klúbbsvæðinu, á sviði mennta, lista, vísinda eða atvinnumála og að veita framlag til Rótarý Foundation.

3. gr.

Stofnfé sjóðsins er 370.000 kr., sem er söfnunarfé Rótarýklúbbsins í Görðum. Raungildi stofnfjárins má aldrei skerða.

Stofnfé sjóðsins og aðrar eignir hans skal ávaxta með tryggum hætti og skal kappkostað að ná sem bestri ávöxtun á hverjum tíma.

4. gr.

Tekjur sjóðsins eru vextir af stofnfé hans og öðrum eignum og önnur framlög, sem honum kunna að berast. Þeim skal varið eftir ákvæðum 2.  gr. nema stjórn sjóðsins ákveði að fella úthlutun niður og leggjast tekjurnar þá við hreina eign sjóðsins og eru til úthlutunar þegar stjórnin ákveður.

5. gr.

Stjórn sjóðsins skal leita eftir ábendingum um æskilega aðila til að hljóta úthlutun úr sjóðnum, sérstaklega hjá félögum í klúbbnum.

6. gr.

Stjórn sjóðsins skipa þrír menn og þrír til vara og skulu þeir kosnir á fundi í Rótarýklúbbnum Görðum í júnímánuði ár hver til eins árs í senn. Stjórn sjóðsins kýs sér formann.

Stjórnin ber ábyrgð á varðveislu sjóðsins og ávöxtun hans og annast úthlutun úr honum. Hún skal vinna að eflingu sjóðsins eftir því sem kostur er.

7. gr.

Sjóðurinn hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald og er reikningsár sjóðsins frá 1.júlí til 30.júní. Fráfarandi sjóðsstjórn skal leggja fram endurskoðaðan ársreikning ásamt ársskýrslu á fundi í Rótarýklúbbnum Görðum í júlímánuði ár hvert. Ársreikningur skal endurskoðaður af endurskoðendum klúbbsins.

8. gr.

Skipulagsskrá þessari verður aðeins breytt á almennum fundi í Rótarýklúbbnum Görðum og þurfa 2/3 hlutar mættra fundarmanna að greiða breytingum atkvæði. Verði ákveðið að leggja sjóðinn niður renna eignir hans til Rótarýklúbbsins Görðum. Tillögur um breytingar á skiplagsskránni skulu kynntar klúbbfélögum a.m.k. tveimur vikum áður en þær eru teknar til afgreiðslu á klúbbfundi.

9. gr.

Skipulagsskrá þessi skal staðfest á almennum fundi í Rótarýklúbbnum Görðum með a.m.k. 2/3 hluta mættra fundarmanna. 

Febrúar 1987