Rótarýklúbburinn Görðum
Úr Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára
Árið 1965 var byggð mjög farin að vaxa í Garðahreppi, og við það óx hugur fólks á ýmsum félagslegum aðgerðum.
Nokkrir menn höfðu þá kynnst hugsjónum Rótarý, og samráð þeirra leiddu til þess, að efnt var til stofnunar rótarýklúbbs, er skyldi hafa starfssvæði í Bessastaða- og Garðahreppi, enda hafði Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar góðfúslega veitt leyfi sitt til þess. Umdæmisstjóri var á þessum tíma Sverrir Magnússon. Hann fól Ólafi G. Einarssyni sveitarstjóra að undirbúa stofnfund, og fór hann fram í Samkomuhúsinu á Garðaholti 6. desember 1965, kl. 9 e.h.
Fundinn sóttu tuttugu og sex menn, er allir ákváðu að gerast félagar, og enn bættist einn í hópinn, svo að stofnfélagar urðu alls tuttugu og sjö.
Á fundi þessum flutti dr. Árni Árnason fróðlegt erindi um stofnun og stefnumið Rótarý, en Sverrir Magnússon umdæmisstjóri lýsti yfir stofnun klúbbsins, en umsjárklúbbur ("Sponsor" klúbbur) var Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar. Samþykkt var, að klúbburinn fengi nafnið: Rótarýklúbburinn Görðum, og það einnig, að fundardagur yrði á mánudögum kl. 12.20, og hefur það haldist síðan.
Stofnbréf Rotary International var veitt 8. apríl 1966, og stofnhátíð klúbbsins fór fram laugardaginn 11. júní hið sama ár. Þar voru á meðal gesta þáverandi forseti Íslands, herra Ásgeir Ásgeirsson, umdæmisstjóri, fulltrúar frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar og eiginkonur félagsmanna. Fyrsta stjórn Rótarýklúbbsins Görðum var þannig skipuð: Jóhann Jónasson forseti, Ólafur G. Einarsson varaforseti, sr. Bragi Friðriksson ritari, Einar Halldórsson gjaldkeri og Sveinn Torfi Sveinsson stallari. Þessir menn höfðu allir verið félagar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar. Í varastjórn voru: Jónas Aðalsteinsson, Ólafur Nilsson og Guðmann Magnússon.
Á öðrum fundi klúbbsins flutti Einar Halldórsson, oddviti á Setbergi. ræðu um Garðahrepp. Þar sagði hann m. a.: "Áður fyrr lifðu flestir hér á grasnyt. Nú er þetta gjörbreytt. Flestir félagar eru hér nýir landnámsmenn. Vaxandi byggð þarfnast samhygðar íbúanna, frjórra hugmynda og velvildar. Rótarýklúbbur hefur miklu hlutverki að gegna á því sviði." Það má með rökum segja, að hinn ágæti sveitarforingi hafi með þessum orðum markað stefnu klúbbsins, því að þessi félagsskapur hefur æ síðan fjallað um mörg þau málefni, sem tengjast klúbbsvæðinu á einn eða annan hátt, og leitast við að knýja á um aðgerðir í þágu þeirra málefna, er til heilla mættu verða.
Í því sambandi má nefna verðlaunaafhendingu klúbbsins fyrir fegurstu garðana eða sveitarbýlið á klúbbsvæðinu. Þá hefur klúbburinn veitt nemendum skólanna verðlaun fyrir árangur í námi og annast starfskynningu í skólunum. Í því sambandi má minnast á mjög vel heppnaða umhverfiskynningu, er fór fram í skólunum. Félagar hafa unnið að gróðursetningu og áburðardreifingu í Heiðmörk og látið gera kort yfir skemmtilegar gönguleiðir á klúbbsvæðinu og oft efnt til gönguferð a um nágrennið. Safnað hefur verið bókum meðal klúbbfélaga og þær gefnar bókasöfnum sveitarfélaganna. Þá hefur klúbburinn ávallt tekið þátt í söfnun til Hjálparsjóðs Garðasóknar og stutt við starf í þágu aldraðra. Frá upphafi kom klúbburinn fyrir jólatrjám. og ýmis mál hafa verið tekin fyrir á fundum klúbbsins, sem aukið hafa kynni manna á starfsemi annarra félaga eða nauðsynjamálum þeim, sem unnið er að innan marka klúbbsvæðisins.
Klúbburinn hefur alla tíð lagt áherslu á það að styrkja gagnkvæm kynni félaganna sjálfra. Menn hafa flutt starfsgreinarerindi og kynnt önnur áhugamál sín. Þá hefur verið farið á vinnustaði og efnt til ferðalaga og fundarhalda með mökum og fjölskyldum félagsmanna, og má í því sambandi nefna hinn fasta lið að fara til kirkju og efna til jólafundar með fjölskyldum klúbbbræðra síðasta sunnudag fyrir jól ár hvert. Fundargerðir bera um það vitni, að mjög fjölþætt efni hefur verið á dagskrá. Þar hafa verið flutt gagnmerk erindi, og oft hafa menn skýrt þau með myndum eða teikningum. Félagsmenn hafa oft aukið á þessa fjölbreytni með upplestri á kvæðum, 3ja mínútna ræðum, sameiginlegum söng og kynningu á bókum, sem þeir hafa lesið. Árshátíðir klúbbsins hafa verið mjög ánægjulegar og skemmtinefndir jafnan lagt sig fram um góða dagskrá og skreytingu húsnæðis. Þá hefur klúbburinn ætíð lagt áherslu á góða fundarsókn og verið þar í fremstu röð íslensku klúbbanna. Fundir hafa verið haldnir í Samkomuhúsinu á Garðaholti, síðan á Hótel Loftleiðum og loks nú síðast á Hótel Sögu.
Samskipti við aðra klúbba hafa verið náin. Gagnkvæmar heimsóknir hafa verið tíðar og efnt til ferðalaga til annarra klúbba, sem þeir hafa síðan endurgoldið. Þá hafa árshátíðir einnig farið fram í samvinnu við aðra rótarýklúbba.
Rótarýklúbburinn Görðum hefur einnig leitast við að starfa á vettvangi alþjóða-þjónustunnar. Erlendum stúdentum við nám hér á landi hefur verið boðið á fundi og á heimili félagsmanna og ferðalög íslenskra ungmenna studd til útlanda. Klúbburinn hefur tekið á móti og skipulagt dvöl erlendra rótarýfélaga og skipst á bréfum og munum við erlenda klúbba. Innan vébanda norrænnar samvinnu hefur klúbburinn lagt áherslu á góð samskipti við rótarýfélaga í norrænum vinabæjum Garðabæjar.
Þá hefur klúbburinn lagt sérstaka áherslu á kynningu og stuðning við Rotary Foundation, og er klúbburinn nú 2100% klúbbur. Fyrsti forseti okkar, Jóhann Jónasson, er nú Paul Harris Fellow.
Fáni klúbbsins var afhentur á fundi 13. maí 1968. Höfundur hans og hönnuður var Sigurður Örn Brynjólfsson. Fáni þessi var fyrst afhentur Jan Van Zalinge frá Rótarýklúbbnum í Hoom í Hollandi, en hann var gestur á fundi 15. júlí 1968.
Tveir félagar hafa verið kjörnir umdæm-isstjórar á Íslandi. Það eru þeir Ólafur G. Einarsson, 1969-1970, og Olafur E. Stefánsson, 1983-1984. Þetta er klúbbnum mikill heiður og eigi síst fyrir þá sök, að báðir þessir menn hafa reynst hinir hæfustu leiðtogar bæði í eigin klúbbi og í rótarýhreyfingunni allri. Á embættisferli þeirra hefur klúbburinn séð um umdæmisþingin.
Konur klúbbfélaga hafa ekki efnt til formlegra samtaka sín á meðal (Inner WheeI), en þær hafa komið saman öðru hverju og þannig aukið kynni sín og samstöðu með Rótarý.
Veigamikill þáttur í starfi klúbbsins hefur verið fræðsla um rótarýmálefni, og reglulega fara félagar með fjórprófið sameiginlega. Klúbbfélagar hafa skipt með sér að flytja kynningarþætti um Rótarý með 3ja mínútna erindum, frásögnum af heimsóknum sínum í aðra klúbba eða fræðslu að hálfu rótarýgesta innlendra sem útlendra. Hefur þetta gefið góða raun. Þá reynum við að taka notalega á móti gestum okkar og greiða götu þeirra erlendu gesta, er til okkar koma.
Stofnfélagar Rótarýklúbbsins Görðum voru tuttugu og sjö, eins og fyrr er greint. Nú eru þrír þeirra látnir: Einar Halldórsson oddviti, Setbergi, Guðmann Magnússon hreppstjóri, Dysjum, og dr. Gunnar Sigurðsson, Garðabæ. Átta stofnfélagar hafa gengið úr klúbbnum. Nú eru félagar fimmtíu.
Bragi Friðriksson.