Fréttir

23.3.2014

Sjávarklasinn heimsóttur

Rótarýfélagar heimsóttu að þessu sinni Sjávarklasann á Grandagarði en það er samstarfsvettvangur fyrirtækja í haftengdri starfssemi sem hafa það að markmiði að auka virði fyrirtækja sem starfa við eða tengjast sjávarútvegi eða sjávarafurðum. Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri, leiddi gesti um húsnæðið, sagði stuttlega frá starfsseminni og kynnti nokkrar frumkvöðlavörur sem fyrirtæki innan klasans hafa skapað og unnið að. Hugmyndafræðin byggir á grundvelli klasafræða þar sem margir koma saman, vinna að ólíkum verkefnum en tengjast með því markmiði að auka verðmætasköpun innan landssvæða eða atvinnugreina. Mikið frumkvöðlastarf á sér stað og mörg spennandi verkefni hafa litið dagsins ljós á þeim tíma sem Sjávarklasinn hefur starfað. Stöðugt bætast við áhugasamir aðilar sem vilja tengjast klasanum og þvi er verið að taka þriðja áfanga í notkun og hugað að fjórða áfanga húsnæðisins. Á myndinni má sjá Þór Sigfússon framkvæmdastjóra Sjávarklasans.