Fréttir

25.2.2014

Ísafold heimsótt

Á fundi þann 24.febrúar var Ísafold nýtt hjúkrunarheimili í Garðabæ heimsótt. 

Ingibjörg Valgeirsdóttir forstöðumaður Ísafoldar og rótarýfélagi í Görðum tók á móti hópnum.

Sveinn H. Skúlason fyrrum umdæmisstjóri byrjaði á að segja frá sögu og aðdraganda á byggingu hjúkrunarheimilisins sem opnaði í apríl 2013.  Sveinn starfaði við uppbyggingu hjúkrunarheimilisins Ísafoldar en áður starfaði hann um árabil á Hrafnistu.

Ingibjörg forstöðumaður sagði frá áherslum í rekstri og hvernig hann gengi. Fram kom að Garðabær hefur þurft að styðja við reksturinn þar sem daggjöld frá ríkinu duga ekki til þess að standa undir rekstrarkostnaði. Á heimilinu búa 60 manns og eru 6 heimiliseiningar með aðstöðu fyrir 10 íbúa. Á jarðhæð er þjónustumiðstöð með stórum sal sem íbúar geta fengið afnot af. Þar er einnig hægt að fá ýmsa þjónustu.  Lögð er áhersla á að hafa heimilisbrag yfir öllu og skapa notalega stemmingu fyrir íbúana. Boðið er uppá dagdvöl fyrir 20 einstaklinga og stendur til að fjölga þeim plássum í framtíðinni. Starfsmenn eru 120 talsins í 66 stöðugildum.

Ísafold er staðsett við Strikið 3 á Sjálandi í sama húsi og Okkar bakarí. Upplagt er fyrir íbúa og gesti að fá sér kaffi og bakkelsi í bakaríinu ekki síst í góðviðrisdegi þegar hægt er að njóta veitinganna í fallegum skjólsælum garði bak við húsið.