Fréttir

14.2.2014

Suður-Afríka heimsótt

Guðbjörg Alfreðsdóttir verðandi umdæmisstjóri sagði frá ferð til Suður-Afríku.

Í upphafi fundar var tekinn inn nýr rótarýfélagi Hanna Kristín Gunnarsdóttir ljósmyndari.

Ferð Guðbjargar og félaga stóð frá 6. – 20.mars 2013. Um var að ræða Rotary Friendship Exchange eða vinaskiptaferð. Hópurinn sem fór frá Íslandi gisti heima hjá rótarýfélögum og var það að sögn Guðbjargar skemmtileg upplifun og tækifæri til þess að kynnast menningu og landi betur en þegar gist er á hóteli.

Í ferðinni voru nokkrir rótarýklúbbar heimsóttir einnig barnaheimili og skólar sem eru studdir af rótarýklúbbum. Enza hjálparsamtökin voru heimsótt en þau eru íslensk/suður-afrísk hjálparsamtök sem vinna að atvinnuskapandi uppbyggingarstarfi fyrir konur.Starfsemin þeirra fer fram í Mbekweni-New Rest fátækrahverfinu í Suður-Afríku sem liggur 50 km norður af Höfðaborg.

Í lok ferðarinnar dvaldi hópurinn í Kruger Park þar sem daglegar ferðir voru farnar að skoða fíla, gíraffa, flóðhesta, ljón, sebrahesta og fleiri dýr sem er að finna í Suður-Afríku. Af myndum Guðbjargar mátti sjá að ferðin hefur verið sannkölluð ævintýraferð.