CCP - heimsókn
Rótarýfundur þann 9.desember var fyrirtækjaheimsókn í CCP.
CCP er framleiðandi tölvuleiksins EVE Online sem er fjölþátttökuleikur sem notendur spila í gegnum Netið. Hjá CCP tók starfsmaðurinn John King á móti rótarýfélögum og gestum en hann hefur umsjón með ,,Community Team“ sem er hluti af hönnunarteymi EVE online. Hann kynnti starfsemi fyrirtækisins og byrjaði á því að ganga um fyrirtækið með hópnum. Starfsumhverfið hjá CCP er frekar framandi. Eins og gefur að skilja er mikið af tölvum út um allt og öflug loftræstikerfi í kringum það. Rýmið er opið en skrifstofur og herbergi eru einnig til staðar. Í sameiginlegu rými er að finna risastórt fiskabúr, nokkur billjardborð, leikjatölvur, boxpúða, bækur svo eitthvað sé nefnt.
CCP var stofnað 1997 og eru höfuðstöðvarnar í Reykjavík. Þróun á leiknum EVE online tók nokkur ár, en hann var gefinn út árið 2003 og á því 10 ára afmæli á þessu ári. Notendur EVE online eru svipaðir íbúafjölda landsins. Árlega er haldinn viðburður á Íslandi fyrir EVE online notendur sem er sóttur af þúsundum innlendra og erlendra gesta.