Fréttir
  • Sigurvin

16.10.2013

Betra peningakerfi

Sigurvin Bárður Sigurjónsson var gestur fundarins þann 14.október. Hann er með meistaragráðu í fjármálaverkfræði og starfar hjá KBMG. Erindi hans nefndist Betra peningakerfi og fjallaði um hugmyndafræði sem hann og félagar hans hafa verið að kynna hér á landi. Hugmyndafræðin gengur út á að breyta núverandi peningakerfi í Betra peningakerfi sem hann lýsti í erindinu sem heildarforðakerfi til samanburðar við núverandi kerfi sem hann nefnir brotaforðakerfi. Betra peningakerfi gengur m.a. út á að flytja ákvörðun um peningamagn í umferð til peningamagnsnefndar sem yrði lýðræðislega kosin nefnd. Það felur einnig í sér að færa prentunarvald og úthlutunarvald peningakerfisins til peningamagnsnefndarinnar. Sigurvin bar saman núverandi kerfi við Betra peningakerfi og útskýrði hvaða áhrif það hefði ef breytt væri um kerfi. Hann fór yfir eðli núverandi banksstarfsemi og samspil út- og innlána hjá bönkum. Einnig sýndi hann þróun á peningamagni í umferð frá 1995 þar sem fram kom mikil aukning í kjölfar einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans árið 2002. Hann talaði um að bankarnir hafi tilhneigingu til þess að ýkja sveiflur í efnahagskerfinu ef þeim er leyft að stýra peningamagni í umferð. Þá sýndi hann vaxtatekjur á Íslandi í hlutfalli við fjárlögin til þess að fólk geti áttað sig á hversu mikið fjármagn liggur í vaxtatekjum. Umræðan um Betra peningakerfi er sífellt að aukast hér á landi og í nágrannalöndunum. Ef breyta ætti yfir í Betra peningakerfi þá gæti umbreytingatíminn verið 5-7 ár.