Áskoranir og tækifæri í íslenskum iðnaði.
Erindi Bjarna Más Gylfasonar, hagfræðings.
Á hádegisfundi Rkl. Görðum í dag flutti Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, erindi sem hann nefndi Áskoranir og tækifæri í íslenskum iðnaði.
Bjarni Már kom víða við í erindi sínu. Hann fjallaði m.a. um launamyndun, verðlag, verðlagshækkanir og verðbólgu. Árið 2012 var að hans sögn ár vonbrigða. Verðbólga það ár var 5,2% og efnahagsbatinn varð minni en menn gerðu ráð fyrir. Á tímum efnahagssamdráttar hefur okkur oftast tekist að halda verðlagi í skefjum en ekki nú.
Bjarni Már fjallaði um gengismál, stöðu krónunnar og víxlhækkun launa og verðlags sem er gömul og ný saga hér á landi. Í því sambandi nefndi Bjarni Már þjóðarsáttina 1990 sem hefði reynst afar vel við að draga úr víxlhækkuninni og minnka verðbólgu í landinu.
Hann benti á að það sem stæði mörgum fyrirtækjum fyrir þrifum nú væri skortur á fólki með verk- og tæknimenntun. Sá fjöldi, sem færi inn og út úr skólakerfinu, væri í hróplegu ósamræmi við þarfirnar í samfélaginu. Meðalaldur starfsmanna í ýmsum iðngreinum færi mjög hækkandi.
Tvennt væri afar mikilvægt að hans mati um þessar mundir: Annars vegar að menn kæmust að skynsamlegri niðurstöðu í kjaramálum og hins vegar að iðnmenntun yrði byggð upp með kröftugum hætti.
Að loknu erindinu svaraði Bjarni Már mörgum fyrirspurnum og athugasemdum frá félögum klúbbsins.