Fréttir

28.5.2011

Indland í máli og myndum

Sendiherra Indlands og Rótaractklúbburinn Geysir

Þjóðarkvöld Rótarýklúbbsins Görðum var haldið í Veisluturninum Smáratorgi þann 9. maí sl. Meðal gesta var sendiherra Indlands og fulltrúar úr Rótaractklúbbnum Geysi.

Það var föngulegur hópur félaga og maka sem var samankominn á indverskt þjóðarkvöld í Veisluturninum. Kvöldið hófst klukkan 18:00 með fordrykk og við tók glæsilegt margrétta veisluhlaðborð með indversku ívafi. Páll Hilmarsson, forseti klúbbsins, bauð gesti velkomna og kynnti fyrirlesara kvöldsins. Fyrstur tók til máls Garðbæingurinn og sendiherra Indlands á Íslandi, S. Swaminathan, sem fræddi gesti um Indland og fjallaði sérstaklega um þá þætti sem Indland og Ísland eiga sameiginlega og samstarf þjóðanna.  Þá kynnti forseti Rótaractklúbbsins Geysis, Þórhildur Magnúsdóttir, rótarýverkefnið PolioPlus, en auk hennar voru tveir félagar hennar, Egill Almar Ágústsson og Kjartan Logi Ágústsson. Þau sögðu frá ferð sinni til Indlands þar sem meginverkefnið var að bólusetja börn gegn lömunarveiki (polio) og reisa stíflugarða.

Kvöldið var einstaklega vel heppnað, fróðlegt og ánægjulegt.