Fréttir

26.10.2010

Hrafnkell Helgason látinn

Heiðursfélagi í Rótarýklúbbnum Görðum

 

Vinur okkar og rótarýfélagi til margra ára og heiðursfélagi klúbbsins, Hrafnkell Helgason læknir, lést á Landspítalanum þriðjudaginn 19. október sl. Hrafnkell var 82 ára að aldri, fæddur að Stórólfshvoli í Rangárþingi 28. mars árið 1928.

 

Hrafnkell lauk læknanámi frá Háskóla Íslands árið 1956 og stundaði síðan framhaldsnám og læknastörf í Svíþjóð fram til ársins 1968 er hann tók við yfirlæknisembættinu á Vífilsstöðum af Helga Ingvarssyni. Hrafnkell var fyrsti íslenski læknirinn sem var sérmenntaður í lungnasjúkdómum og vann hann brautryðjendastarf á því sviði hérlendis. Hann stóð m.a. fyrir rannsóknum á kæfisvefni, ásamt Þórarni Gíslasyni, sem vöktu mikla athygli bæði hérlendis og erlendis. Jafnhliða störfum sínum á Vífilsstöðum sinnti Hrafnkell störfum á lyflækningadeild Landspítalans og var lektor og dósent við læknadeild Háskóla Íslands í á þriðja áratug. Hrafnkell lét af yfirlæknisstarfinu á Vífilsstöðum árið 1998.

 Við, rótarýfélagar í Görðum, minnumst ekki aðeins Hrafnkels Helgasonar sem góðs félaga sem mætti vel á fundi, þótti vænt um félagsskap okkar og sýndi rótarýstarfinu mikinn áhuga – heldur einnig vegna þess hve gefandi samvistir við hann voru. Við Hrafnkel var hægt að ræða hvað sem var, hvenær sem var, enda hafði hann áhuga á svo mörgu. Ekki síst miðlaði hann okkur af þekkingu sinni á Sturlungu sem hann kunni næstum utanað og hafði djúpa sýn á fræðum hennar. Umfram allt var Hrafnkell fróður maður og kunni þá list að segja skemmtilega frá.  

Hrafnkeli þótti vænt um byggðarlag sitt, Garðabæ. Hann vissi margt um sögu þess, náttúru og umhverfi enda mikill náttúruunnandi. Ekki síst var honum Vífilsstaðir hugleiknir. Bæði fortíð þess merka staðar og ekki síður framtíð sem hann bar fyrir brjósti til hinsta dags. Er óskandi að sú umhyggja sem hann sýndi staðnum megi verða lóð á þær vogarskálar að finna honum verðugt framtíðarverkefni.  

Hrafnkell var tvíkvæmtur. Fyrri kona hans var Helga Lúðvíksdóttir Kemp og eignuðust þau þrjú börn. Eftirlifandi seinni kona hans er Sigrún Aspelund, myndlistarkona og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Garðabæ. Við, rótarýfélagar, sendum Sigrúnu, börnum Hrafnkels og öllum öðrum aðstandendum hans okkar hugheilustu samúðarkveðjur.  

Jarðarför Hrafnkels Helgasonar fer fram í Vídalínskirkju í Garðabæ, föstudaginn 30. október nk. og hefst hún kl. 15.00.