Fréttir

14.11.2010

Umræða um umdæmisþingið í Kópavogi

Á næsta fundi Rótarýklúbbs Eyjafjarðar, þriðjudaginn 16. nóvember nk, mun Helgi Þór Helgason, forseti Rótarýklúbbs Eyjafjarðar, hafa framsögu um umdæmisþing Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi sem haldið var í Kópavogi í síðasta mánuði.

Treystum samfélagið - Tengjum heimsálfur er þýðing umdæmisstjóra, Margrétar Friðriksdóttur á einkunnarorðum alheimsforseta Rótarý, Ray Klinginsmith: Building communities, bridging continents. Sjaldan hefur verið mikilvægara en nú að treysta samfélagið og eigi mannkynið að finna leið út úr þeim ógöngum sem því hefur tekist að koma sér í víða, er nauðsynlegt að tengja heimsálfur – finna leið til að sameina þá sem á jarðarkringlunni búa.

Ein er sú auðlind sem á næstu árum og áratugum á eftir að aukast að verðgildi. Það er vatnið en þema þingsins nú var eimmitt vatn í öllum myndum og athygli ráðstefnugesta vakin á bæði skorti og ofgnótt vatns um víða veröld. Þörf umræða og vel við hæfi í landi sem býr við þann lúxus að eiga margfalt magn þess vatns sem flestir eiga eða hafa aðgang að.  Okkur ber að virða það og gæta þess að spilla ekki þessari auðlind.




SFS