Guðmundur Baldvin Guðmundsson ræðir bæjarmálin
Á næsta fundi Rótarýklúbbs Eyjafjarðar, þriðjudaginn 9. nóvember nk, mun Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi og oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri, fyrrum rótarýfélagi í klúbbnum, verða gestur okkar. Verður rætt um bæjarmálin og framvindu þeirra í kjölfar þess að Listi fólksins hlaut hreinan meirihluta í kosningum í vor.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson er fæddur 18. desember 1962 á Akureyri. Guðmundur er stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, hefur lokið þriggja anna rekstrar- og viðskiptanámi frá Háskólanum á Akureyri og lauk prófi í verðbréfaviðskiptum 2006.
Guðmundur Baldvin hefur m.a. starfað hjá Ríkisskattstjóra, Endurskoðun Akureyri (nú KPMG) og í 10 ár starfaði hann hjá Samherja hf, þar af síðustu árin sem fjármálastjóri fyrirtækisins. Hann starfar nú sem skrifstofustjóri Stapa lífeyrissjóðs.
Guðmundur hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum m.a. hjá Knattspyrnufélagi Akureyrar þar sem hann sat í aðalstjórn félagsins um tíma, hefur auk þess setið í stjórnum ýmissa félaga og syngur í Karlakór Akureyrar Geysi.
Guðmundur Baldvin var kjörinn í bæjarstjórn Akureyrar í kosningunum í maí 2010 eftir að hafa sigrað prófkjör Framsóknarflokksins í janúar 2010.
Guðmundur er í sambúð með Soffíu Gísladóttur forstöðumanni Vinnumálastofnunar á Norðurlandi og eiga þau samtals 7 börn á aldrinum 10 til 25 ára.
SFS