Fréttir

1.11.2010

Háskólasamfélagið á Bifröst - tækifærin og framtíðin

Á næsta fundi Rótarýklúbbs Eyjafjarðar, þriðjudaginn 2. nóvember nk, mun Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dósent í lagadeild Háskólans á Bifröst, verða gestur okkar. Mun hún kynna fyrir okkur háskólasamfélagið á Bifröst og auk þess velta fyrir sér tækifærum og framtíð þess, hugsanlega við breyttar aðstæður.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans á Bifröst, útskrifaðist með stúdentspróf úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla 1984, embættispróf úr lögfræði við Háskóla Íslands árið 1992, diplóma í rekstrar- og viðskiptafræðum við endurmenntunarstofnun HÍ árið 1995 og MSc í mannauðsstjórnun við Strathclyde University í Glasgow 2001.

Ingibjörg starfaði sem fulltrúi í þinglýsingadeild við embætti sýslumannsins í Kópavogi árið 1992, að loknu námi og var framkvæmdastjóri Kvennaráðgjafarinnar 1992-1994, en hún veitir konum ókeypis lögfræðilega og félagsfræðilega ráðgjöf.

Ingibjörg var lögfræðingur á tekju- og lagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins 1992-1999. Hún starfaði í sendiráði Íslands í Brussel, sem fulltrúi fjármálaráðuneytisins (sendinefnd Íslands hjá Evrópusambandinu) á árunum 1995-1997.

Hún sat í ýmsum nefndum fyrir hönd ráðuneytisins, s.s. nefnd um gerð tvísköttunarsamninga, nefnd um endurskoðun tollalaga og nefnd um endurskoðun skattlagningar á olíu. Kom að gerð fjölda laga- og reglugerðarbreytinga á flestum sviðum skattaréttar.

Ingibjörg var starfsmannastjóri Frjálsa fjárfestingabankans 2000-2002, allt þar til fyrirtækið var selt Kaupþingi.

Ingibjörg var ráðin til Háskólans á Bifröst í ágúst 2001 (þá Viðskiptaháskólinn á Bifröst), fyrst sem aðjúnkt og kennari við lagadeild og viðskiptadeild. Hún var deildarstjóri lagadeildar (síðar forseti deildarinnar) frá 1. febrúar 2002 og gegndi því starfi fram í ágúst 2005.

Meginviðfangsefni í starfi Ingibjargar á Bifröst hefur falist í því að byggja upp og stýra starfi lagadeildar. Hún hefur starfað sem lektor við lagadeildina frá árinu 2008, að loknu starfsleyfi.



SFS