Ólafur Jónsson ræðir bæjarmálin
Á næsta fundi Rótarýklúbbs Eyjafjarðar, þriðjudaginn 26. október nk, mun Ólafur Jónsson, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, rótarýfélagi úr Rótarýklúbb Akureyrar, verða gestur okkar. Verður rætt um bæjarmálin og framvindu þeirra í kjölfar þess að Listi fólksins hlaut hreinan meirihluta í kosningum í vor.
Ólafur er fæddur árið 1957 í Ósló en ólst upp á Egilsstöðum. Hann lauk landsprófi frá Alþýðuskólanum á Eiðum og brautskráðist sem stúdent frá Menntaskólanum við Tjörnina árið 1977. Hann lauk Cand.med vet.-prófi frá Dýralæknaháskólanum í Ósló í desember 1982. Hann hefur einnig lokið 3ja anna framleiðslutækninámi við Landbúnaðarháskólann að Ási í Noregi árið 1996 og stjórnunarnámi á vegum Símenntunar Háskólans á Akureyri og Eyþings vorið 2003.
Ólafur var framkvæmdastjóri Bústólpa ehf á Akureyri frá 2001-2007 og þar áður starfaði hann sem gæðastjóri Kaldbaks og mjólkursamlagsins á Akureyri. Hann hefur einnig starfað við stundakennslu, rannsóknir, og ráðgjöf í gæðastjórnun. Ólafur er héraðsdýralæknir í Skaga- og Eyjafjarðarumdæmi.
Ólafur hefur verið bæjarfulltrúi á Akureyri frá ársbyrjun 2010 og varð oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í júní 2010. Hann var varabæjarfulltrúi, formaður íþróttaráðs og varaformaður skipulagsráðs 2006-2010.
SFS