Fréttir

9.10.2010

Heimsókn í Flugsafnið

Á næsta rótarýfundi, þriðjudaginn 12. október nk, munum við fara í heimsókn í Flugsafnið á Akureyri. Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri og fyrrverandi forstjóri Atlanta, mun að loknum kvöldverði flytja erindi um safnið og sögu flugs á Íslandi - auk þess að sýna okkur safnið.

Flugsafnið á Akureyri var stofnað 1. maí 1999. Hlutverk Flugsafnsins er að safna, varðveita og sýna muni sem tengjast flug á Íslandi, sögu þess og þróun. Einnig er það markmið safnsins að safna myndum sem tengjast flugsögunni, skrá þær og aðra þá þætti sem hafa menningarsögulegt gildi.

Þegar var hafist handa við að koma upp sýningu í flugskýli á Akureyrarflugvelli og þann 24. júní árið 2000 var safnið opnað með formlegum hætti. Flugsafnið keypti síðan þetta hús.

Í júní árið 2000 var haldin á Akureyri, í fyrsta skipti svo kölluð Flughelgi á vegum Flugsafnsins og Flugmálafélags Íslands. Þar fer fram Íslandsmót í listflugi og sýnt flug af ýmsu tagi. Samningur var gerður milli þessara aðila um að Flughelgin á Akureyri verði árlegur viðburður í framtíðinni og hefur svo verið.

Á aðalfundi safnsins sem haldinn var 26. febrúar árið 2005 var samþykkt að breyta nafni safnsins í FLUGSAFN ÍSLANDS.



SFS