Fréttir

5.7.2010

Ávarp fráfarandi forseta á stjórnarskiptafundi

Rótarýfundur 29. júní 2010 - stjórnarskipti

Stefán Friðrik Stefánsson, fráfarandi forseti Rótarýklúbbs Eyjafjarðar, fór yfir starfsárið í stuttri tölu á stjórnarskiptafundi á Hótel KEA 29. júní sl.

Ágætu félagar!

Komið er að lokum starfsársins. Að baki eru 46 fundir. Við höfum fengið til okkar góða gesti og hlýtt á fjölbreytt fundarefni og átt ánægjulegar og góðar umræður um daginn og veginn. Auk þess farið í heimsóknir í Háskólann síðastliðið haust og í Flokkun, nú með vorinu, sem voru mjög gagnlegar og áhugaverðar.

Sveinn H. Skúlason, umdæmisstjóri og Sólveig Erlendsdóttir, eiginkona hans, voru gestir okkar á fundi 1. september sl. 900. fundur klúbbsins, sérstakur hátíðarfundur, var haldinn 30. mars sl. og við fengum sr. Gunnlaug Garðarsson, prest í Glerárkirkju, sem gest á veglegan jólafund 15. desember sl.

Hermann Jón Tómasson, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri, var gestur okkar 9. mars sl. en hefð er fyrir því að bjóða bæjarstjóra í heimsókn. Auk þess var Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, gestur á páskafundi.

Við höfum fengið rótarýfélaga til okkar í heimsókn bæði úr Akureyrarklúbbnum og víða um landið, auk þess sem auðvitað stendur sérstaklega upp úr heimsókn hjónanna frá Hollandi (Prineke van Hoeve og Chris Edwards) nú á vormánuðum en mjög notalegt var að ræða við þau, enda mjög viðkunnanleg og áhugasöm um rótarýstarfið hér á svæðinu.

Ný stjórn tekur nú við í Rótarýklúbbi Eyjafjarðar. Hana skipa: Helgi Þór Helgason, forseti, Eiður Guðmundsson, ritari, og Helgi Vilberg, gjaldkeri.

Ég óska nýrri stjórn allra heilla næsta starfsárið og þakka um leið fyrir mig er ég vík úr stjórn klúbbsins. Þetta hefur verið viðburðaríkt og gott ár.

 

Að svo mæltu slítum við þessum síðasta fundi starfsársins með því að fara með fjórprófið og að því loknu mun nýr forseti setja fyrsta fund nýs starfsárs.

Stefán Friðrik Stefánsson
fráfarandi forseti Rótarýklúbbs Eyjafjarðar