2012 Svíþjóð
Ferð Rótarýklúbbsins Borga til Norrköping í Svíþjóð 18. til 22. ágúst 2011
Forsaga þessa máls er að í september 2009 var hér á ferð 18 manna hópur frá Rótarýklúbbnum Louis De Geer í Norrköping sem er vinabær Kópavogs. Þessi hópur fór með okkur í jeppaferðina það haustið á syðra og nyrðra Fjallabak með næturgistingu í Hvanngili. Núna má skipta klúbbfélögum í Louis De Geer í tvo hópa, þá sem fóru í Íslandsferðina og hina sem sjá eftir að hafa ekki farið. Í sænska klúbbnum er einn Íslendingur, Steingrímur Jónsson, sem hefur lengi verið tengiliður milli þessara tveggja klúbba.
Lagt var af stað að morgni fimmtudagsins 18. ágúst með flugi til Stokkhólms. Þar beið okkar rúta sem flutti okkur beinustu leið til Norrköping og tók sú ferð tæpar 3 klukkustundir. Flest okkar voru á sama hóteli miðsvæðis í Norrköping en nokkrir voru í heimagistingu hjá vinum úr Fjallabaksferðinni eða öðrum rótarýfélögum í Norrköping. Um kvöldið var móttaka í ráðhúsinu þar sem tók á móti okkur forseti borgarstjórnar. Þarna hittum við ferðafélaga okkar úr jeppaferðinni og urðu fagnaðarfundir með rabbi yfir ágætis veitingum og skipst var á ræðum og gjöfum. Þessa daga var borgarhátíð í Norrköping og um kvöldið sáum við flugeldasýningu í miðborginni.
Snemma morguns 19. ágúst mættum við á morgunverðarfund í rótarýklúbbnum Louis De Geer en fundastaður þeirra er í tónleika- og ráðstefnuhúsi kenndu við Louis De Geer. Louis De Geer var hollenskur iðnjöfur sem flutti til Svíþjóðar í byrjun 17. aldar og reisti margar verksmiðjur m.a. í Norrköping. Það vakti athygli okkar hve fundurinn var óformlegur. Að loknum fundi fórum við í gönguferð um fyrrum iðnaðarhverfi Norrköpings, sem nú er safn, og þar var margt áhugavert að sjá. Gönguferðin endaði í Norrköpings Visualiseringscenter sem á sér fáar hliðstæður og erfitt er að lýsa, en þarna eru alls kyns hlutir og fyrirbæri gerð sýnileg á nýstárlegan hátt. Nú var farið í rútu til Krusenhof Gård og snæddur hádegisverður. Krusenhof Gård liggur rétt utan við borgina og er gamall herragarður eða smáhöll og þar hittum við íbúana sem buðu til hádegisverðarins og sögðu frá staðnum og sögu hans; en einn af gestgjöfunum er meðlimur í rótarýklúbbnum Louis De Geer. Á landareigninni er sögunarmyllan Holmens sågverk og var næsta verkefni að skoða hana. Ekki var mikið um að vera þegar við heimsóttum mylluna en sett var í gang lítið verkefni fyrir okkur og var mjög fróðlegt að sjá hvernig þetta gengur fyrir sig. Að þessu loknu var ekið heim á hótel en við höfðum kvöldið fyrir okkur. Þetta kvöld rigndi mikið en flestir fóru og fundu sér veitingastað og við áttum ánægjulegt kvöld saman.
Laugardaginn 20. ágúst var veðrið aftur orðið gott og var það eins gott vegna þess að allur dagurinn var ætlaður í siglingu í skerjagarðinum. Við fórum fyrst í rútu til smábæjarins Mem sem liggur við mynni Göta kanal en þessi skipaskurður tengir stóru stöðuvötnin Vänern og Vättern við Eystrasaltið. Skurðurinn var opnaður 1832 og austasti slússinn (skipastiginn) er einmitt við Mem. Eftir nokkra bið sigldum við út fjörðinn í skipinu MS Lindön sem var mátulega stórt fyrir hópinn. Veitt var ríkulega í mat og drykk á leiðinni. Ferðinni var heitið til eyjar sem heitir Västra Gärsholmen en á þessari eyju er litla kirkjan Capella Ecumenica. Þetta er vinsæll staður fyrir brúðkaup og skírnir og þarna var brúðkaup einmitt í uppsiglingu. Við fengum kynningu á staðnum og sögu hans en þetta er mjög sérstakur staður með merka sögu. Svíarnir höfðu tekið með sér gríðarlegt magn alls kyns kræsinga sem næst var ráðist til atlögu við en vegna þess að okkur hafði seinkað vorum við hálfpartinn rekin burt. Þegar við komum til baka til Mem var boðið til mikillar veislu þar sem borðin svignuðu undan mat og drykk. Í veislunni stigu á pall hjónin Ágúst Guðmundsson og Vaka Haraldsdóttir og sungu mjög fallega fyrir okkur og gestgjafana. Þessi dagur varð eiginlega matardagurinn mikli þar sem hver matarveislan rak aðra.
Sunnudagurinn 21. ágúst rann upp bjartur og fagur og okkar biðu ný ævintýri. Við eyddum megni dagsins í Kolmårdens djurpark sem er einn stærsti dýragarður Evrópu með bæði safarígarði og höfrungahöll. Fyrst hittum við fólk sem sagði okkur frá staðnum og sögu hans og leiðbeindi okkur um skoðun garðsins. Við svifum í hengivögnum yfir steppum Afríku og Asíu og sáum tamda höfrunga sýna listir sýnar í risastórri laug. Garðurinn er mikið flæmi og margt áhugavert að skoða. Þetta var einn frábær dagur í viðbót í veðri sem gat varla verið betra og á þessum einstaka stað. Að loknum mjög ánægjulegum degi með rótarýfélögum og öllum hinum dýrunum var haldið kveðjuhóf. Sumir meðlimir rótarýklúbbsins Louis De Geer tengjast borgarleikhúsinu í Norrköping (Stadsteatern) og við byrjuðum á að hittast þar og fræðast um leikhúsið. Í leikhúsbyggingunni er veitingastaðurinn Gycklaren (Hirðfíflið eða Trúðurinn) og þar var haldin frábær veisla með mat, drykk, skemmtiatriðum og ræðuhöldum. Þórður Helgason las nokkur ljóða sinna á íslensku og Svanhildur Kaaber flutti þau á skandinavisku. Magnús Jóhannsson lýsti því hvernig hann lærði sænsku þegar hann fór til framhaldsnáms í Lundi og Guðlaug Birna Guðjónsdóttir talaði um tengsl Borga við Louis De Geer. Svíarnir höfðu líka ýmislegt til málanna að leggja og þetta var frábært kvöld.
Mánudaginn 22. ágúst kvöddum við Norrköping og vini okkar þar og héldum í rútu áleiðis til Stokkhólms. Í Stokkhólmi tók við okkur Gunnar Benediktsson eðlisfræðingur sem hefur búið þar í hálfa öld. Hann var leiðsögumaður okkar í gönguferð um miðbæinn enda er hann margfróður um leyndardóma þessarar fallegu borgar. Systir Gunnars er Elín ekkja Guðmundar Jónssonar söngvara en nokkrir í okkar hópi þekkja Elínu. Um kvöldið var móttaka í sendiráði Íslands og að henni lokinni voru flestir orðnir lúnir og voru fegnir að komast heim á hótel.
Þriðjudaginn 23. ágúst flugu svo flestir heim til Íslands að lokinni ferð sem var frábær í alla staði. Við munum vonandi halda áfram að rækta tengslin við þessa ágætu vini okkar í Norrköping.
Magnús Jóhannsson ritaði