2007 Frakkland
Á slóðum duggara og konunga 3.-8. október, 2007
Frakklandsferð Rótarýklúbbanna í Kópavogi að hausti 2007
Nú var runnin upp langþráð stund 81 rótarýfélaga frá Kópavogi er lagt var upp í 6 daga ferð til Frakklands. Eitt aðalmarkmið ferðarinnar var að sækja heim slóðir franskra duggara á Bretange skaga. Áður en heim skyldi haldið var einnig á dagskránni að kanna kampavínsámur og slóðir konunga í Versölum og Reims.
Íslenski morguninn var dimmur og svalur er haldið var til Keflavíkur. Ferðanefndarmenn höfðu lagt nótt við dag í undirbúning sem meðal annars tók til þess að setja peninga fyrir hverja máltíð hópsins í sérmerkt umslög. Þau gleymdust svo í eldvörðum byssuskáp í Kópavoginum þannig að snúa þurfti við á miðjum Keflavíkurvegi til að ná í aurana. En fall er fararheill og allt gekk þetta vel. Ferðanefndin og umslögin náðu í vélina á réttum tíma.
Frakkland tók á móti okkur bjart, grænt og notalega heitt. Um 20°C og hélst það veður til allrar lukku fyrir okkur alla ferðina og regnstakkar og lopapeysur Íslendinganna fengu að kúra í töskunum.
Tvær myndarlegar rútur biðu eftir okkur á DeGaule flugvellinum er fluttu okkur til Caen í Normandí. Einnig biðu okkar á flugvellinum tveir fararstjórar er fylgdu okkur allan tíman. Annar þeirra íslenskur, Laufey Helgadóttir, sem búið hefur í Frakkaríki um margra ára skeið og lagt þungt lóð á vogarskálarnar með ferðanefndinni í skipulagningu ferðarinnar. Einnig beið okkar „enskumælandi“ hálfdanskur Frakki, hann Christian, sem varð sumum í ferðinni yrkisefni er á leið. Í Caen var töskum hent í flýti upp á herbergi og haldið út í kvöldkyrrðina til að skoða mikinn miðaldakastala í miðjum bænum. Einn með öllu, brjóstvörn og síkjum eins og þeir gerast flottastir í ævintýrunum. Svo var farið að finna vænlegan stað til að snæða á. Sumir fóru í gönguferð um miðbæinn og skoðuðu í glæsilega búðarglugga með sýndri veiði en ekki gefinni þegar komið er og farið á lokunartíma verslana. Aðrir fögnuðu fyrirkomulaginu og hverfulum möguleikum þess að hita kreditkortin í ferðinni.
Haldið var af stað snemma morguns frá Caen til Bayeux til að berja augum hinn fræga 70 metra refil sem kallaður er teppið frá Bayeux. Vel þess virði hvort heldur fólk dáðist að framsetningu sögunnar, handverkinu eða naut þeirrar tilfinningar sem verkið vakti sem listaverk eða heimild um löngu liðna atburði. Síðan var haldið sem leið liggur inn á Bretange skaga með viðkomu á klettinum í sjónum, Mont Saint-Michel, þar sem Mikael erkiengill gnæfir á efstu strýtu gulli skreyttur.
Töluverð byggð og fjöldi veitingastaða og sölubúða auk nokkurra íbúða prýða klettinn sem er allur á fótinn. Eftir góða ommelettumáltíð á einum elsta veitingastað klettsins, og þeim frægasta í Frakklandi í ommelettum þar sem eggjahræran er handslegin með aldagömlum takti, fékkst næg orka í gönguferðina á tindinn og til skoðunar á klaustrinu sem er efst á honum. Fagurt og víðsýnt var þaðan og ótrúleg sjón að horfa út yfir flæðisandinn þar sem fellur svo hratt að að hestur á stökki hefur ekki undan flóðinu og munur flóðs og fjöru er um 10-15 metrar. Eins og átján barna faðirinn í álfheimum barði Íslendingurinn þetta allt augum og tók sér stöðu með munkum fyrri alda í lotningu yfir sköpunarverkinu og undrum þess. Eftir góðan mat, magnaða upplifun þar sem sumir hefðu viljað verða eftir hjá Mikáli var haldið af stað til næsta áfangastaðar, Paimpole, en þar skyldi borðuð sameiginleg máltíð við fjöruborðið. Horft til norðurs og ímyndað sér hvít segl skútunnar sem sneri heim frá Íslandsmiðum.
Á björtu, stilltu og fögru haustkvöldi stóðum við á lítilli bryggju rétt utan við þennan fyrirheitna bæ og drukkum í okkur sjávarloftið. Röltum fram á öldubrjótinn sem fer á kaf á flóðinu þannig að bátarnir sýnast vera bundnir hjá Ægi sjálfum en ekki við landfestar. Að loknum viðburðarríkum degi var haldið í náttstað, til sjávarbæjarins Perros Guirec en þangað er um hálftíma akstur í vestur frá Paimpole.
Magnaðasti dagur ferðarinnar rann upp. Augnablikssnerting við annað menningarsamfélag sem tengdist Íslandi á einstakan hátt. Saga sem Elín Pálmadóttir gerir skil í bók sinni „Fransí Biskví“ og sumir ferðafélaga höfðu lesið. Franskar skonnortur og sögur af duggurum sem notuðu rauðhærða stráka í beitu og urðu til þess að lopapeysan okkar fékk nafn sitt vegna þekkingarskorts landans á frönsku. Fulltrúar Íslendingafélagsins á svæðinu skipulögðu daginn, önnuðust leiðsögn og sögðu okkur frá margvíslegum atburðum sem tengja Ísland og Frakkland saman.
Fyrst var haldið í heimsókn á safn í litlu tveggja hæða húsi. Safnið var einkarekið og þar var safnað saman munum og minningum frá lífi franskra sjómanna við Íslandsstrendur. Búningar, fransí biskví, skór (kuldalegir, harðir, þungir og í alla staði óspennandi og óviðkunnanlegur fótabúnaður), auk ritaðra heimilda og mynda um líf, aðstæður og síðast en ekki síst hin ýmsu afrek sem Íslendingar drýgðu við björgun franskra skipbrotsmanna. Meðal annars var þar mynd ásamt texta af björgunarafreki afa eins ferðafélagans sem hafði í rælni, þegar haldið var frá Íslandi, stungið í vasann orðunni sem afi hans fékk fyrir umrætt björgunarafrek. Nú skyldi orðan verða eftir í litlu húsi í Paimpole til eilífrar varðveislu í höndum manns sem meðhöndlar minningartengsl sem hinn dýrmætasta fjársjóð. Það var mjög tilfinningaþrungin stund er orðuafhendingin fór fram og tengsl þessara tveggja þjóða varð allt að því áþreifanleg.
Hópurinn hélt svo á enn tilfinningaþrungnari mið er kirkjugarðurinn með skjöldunum var heimsóttur. Hver skjöldur er með áletrunum um mannfórnir og skipskaða á Íslandsmiðum eftir ártölum. Einstakur minningarreitur um toll þann sem samfélagið í og í kringum Paimpole þurfti að greiða fyrir fiskinn af Íslandsmiðum. Átakanleg saga um líf fátæks fólks fyrir og eftir aldamótin 1900. Lýsandi fyrir aðstöðu og líf þessa fólks er að brúðarklæði voru svört allt nema svuntan því það tók því ekki að konur klæddust öðrum búðarklæðum þar sem líkindin á því að verða ekkjur voru yfirgnæfandi. Allt annað var heppni.
Að lokinni heimsókn í garðinn var haldið til litlu þorpskirkjunnar þar sem fjölskyldur sjómannanna báðu fyrir farsælli vertíð og afturkomu eiginmanna og feðra áður en þeir héldu á Íslandsmið. Ekknakrossinn var að lokum heimsóttur. Steinkross á hæð þar sem sér vel út á hafið í átt til Íslands. Þar sem mestir möguleikar voru á því að sjá hvít segl úti við sjóndeildarhringinn.
Að kveldi þessa magnaða dags var haldið til veislu í samkomuhúsi úti í sveit ekki ólíku þeim sem finnast hér á landi en í stærra lagi. Þar snæddu með okkur leiðsögumenn okkar frá því fyrr um daginn ásamt liðsauka frá Íslendingafélaginu á svæðinu, söngvurum, hljóðfæraleikurum og dönsurum er fluttu okkur söng, dans og þjóðlög frá svæðinu, ásamt því að klæðast búningi þess.
Afskaplega vel var tekið á móti landanum af frönsku alþýðufólki sem við kunnum svo sannarlega að meta. Frábær matur og drykkur, svo vel útilátinn að góður rómur var gerður að. Í þessari frábæru veislu reyndum við að þakka fyrir okkur eftir bestu getu og afhentum bækur, diska og upplýsingarit um Kópavog og Ísland.
Frábær og magnaður dagur sem reyndi á allan tilfinningaskalann var að kveldi kominn og örmagna ferðalangar héldu til náttstaðar. Þó varð ekki öllum svefnsamt, að minnsta kosti ekki þeim er varði allri nóttinni í það að semja mikinn brag um upplifun dagsins.
Hugrenningar frá Paimpole
Ég horfi út á hafið
við helgan kross á strönd.
Hvar minnismark er grafið
um menn við ókunn lönd.
Ei mæðu nokkur mundi
þá minnkar þeirra bið
sem eiga fegins fundi
við fengsæl aflamið.
Þá gæftir eru góðar
gleymist harmur fljótt.
Þeir ætla sér þá óðar
aftur á miðin skjótt.
Gæfu er núna grandað
gleði í sorg er breytt.
Öllu í stormi strandað
stórgróða burtu eytt.
Þá er ei hugsað happið
heppni né gróða frá.
Öllu er kostað kappið
að koma sér landið á.
Björguðust sumir af sundi
sukku í djúpið öll
sem eigum við endurfundi
við eilífðar sjávarföll.
Mér hugsað varð um hana
sem heima beið í von.
Hver bíða mundi bana
”blessa Guð ? minn son”
“Blessa son og bróður
blessa þá í neyð.
Að léttur reynist róður
þeir rati heim á leið.”
Garður geymir vini
og gengna sómamenn.
Og þær sem syrgðu syni
sína og eiginmenn.
Hvers á hún að gjalda
sem heima fær ei breytt
örlögum er valda
öllu ? í ekki neitt.
Hún gifti sig í svörtu
og sorgar hafði bönd.
Hvítt mun bera á björtu
bænarinnar strönd.
Hve sár mun sorgin vera
og sorgar tárin stríð.
Bænir þeirra bera
blessun alla tíð.
Allir sem aftur sneru
eiga sinn dvalarstað.
Síðustu sókn þeir reru
sælunnar miðum að.
Heilögum hér í garði
helguð er minning kær.
Merkur þó minnisvarði
minningu hinum ljær.
Hvar gaum er gefin sála
en gleymum ekki þeim
sem héldu á Íslands ála
og aldrei komu heim.
Gunnar Sigurjónsson, október 2007.
Enn einn fagur haustdagur var runninn upp. Nú skyldi haldið til Versala. Löng keyrsla var framundan. Snæddur var hádegismatur miðja vegu eftir allnokkrar vegvillur. Þegar líða tók á daginn var gert örstutt stopp til að dreypa á Calvados og cidru með þurru, örlítið söltu smjörkexi frá Bretange. Höfgi seig á fólk og áður en varði birtust Versalir framundan. Eftir staðgóðan sameiginlegan kvöldverð með tilheyrandi drykkjarföngum hurfu sumir til rekkju en aðrir fundu nýja orku til að fara út í hið árlega safnakvöld í Versölum og París, þar sem allt var opið fram yfir miðnætti og lauk með ,,ljósasjóvi“ og flugeldum.
Þegar dagur reis fóru flestir í heimsókn til Lúðvíks fjórtánda. Höllin skoðuð og þau listaverk sem þar hefur verið komið fyrir. Járnbrautarvagn ók meirihluta hópsins um lystigarða konungs sem eru fyrirmynd annarra hallargarða í álfunni og þó víðar væri leitað. Eftir hádegissnæðing var haldið á vit nýrra ævintýra. Nú var framundan að heimsækja kampavínskjallara sem einnig var griðastaður flóttamanna í seinni heimsstyrjöldinni.
Eperny er rétt austan við París. Þar er grunnur borgarinnar eins og ostur, svo víðfeðmir eru kampavínskjallarar hinna ýmsu kampavínsframleiðenda í bænum. Ekið var um grænar og gróskumiklar vínviðarlendur svo tilhugsunin ein gaf munnvatnskirtlunum næg tækifæri til framleiðslu. Að lokinni þriggja stundarfjórðunga ferð um neðanjarðar völundarhús, þar sem gaf að líta tug þúsunda kampavínslítra á ýmsum framleiðslustigum, var komið að því að smakka á dýrðinni og bara njóta!
Næsti áfangastaður var krýningarborgin Reims. Þar sem konungar Frakklands komu til að krýnast í dómkirkjunni sem gerð var meðal annars fræg og minnisstæð fyrir atbeina Jóhönnu af Örk. Dómkirkjan fór mjög illa í seinna stríði. Endurreisn hennar hefur staðið æ síðan og ýmsir fjársterkir aðilar lagt hönd á plóg. Meðal annars er í kór kirkjunnar meiriháttar listaverk, steindir gluggar eftir Marc Chagal.
Síðasta kvöldið okkar í Frakklandi var runnið upp og skyldi nú snæddur hátíðarkvöldverður með mörgu því besta sem landið býður upp á. Rótarýklúbbarnir tveir úr Kópavogi héldu sameiginlegan fund í upphafi kvöldsins og farið var með margvíslegan kveðskap sem fæðst hafði í rútunum. Þar höfðu menn frá ýmsu að segja sem oftast var sett fram á léttum nótum.
Heimfarardagur var runninn upp. Haldið var til fundar við hina gljáfægðu Eydísi sem flutti okkur fljótt og vel yfir hafið og heim, eftir kveðjur og þakkir til fararstjóra og bílstjóra er passað höfðu upp á alla okkar hagi í tæpa viku.
Svalur haustdagur heilsaði er þreyttir og glaðir ferðalangar snéru heim eftir góða og velheppnaða ferð um Frakklandslendur.
Með kveðju og þakklæti fyrir
samveruna og frábæra ferð.
Rótarýfélagi,
Þóra Þórarinsdóttir.