2004 Kanada

"Hér kom íslenskt afl"

88 Rótarýfélagar og makar í fræðslu- og skemmtiferð á sólríkum sumardögum

Kristján Guðmundsson skrifar:

Það er í senn undarleg og notaleg tilfinning að vera í fjölmennum hópi vina og kunningja á leið til annarrar heimsálfu. Við vorum reyndar ekki nýgræðingar að ferðast saman. Áður hafði Rótraýhópurinn í Kópavogi farið í þrjár langferðir, til Færeyja, skosku eyjanna og Grænlands. Nú skyldi halda á Íslendingaslóðir í Kanada. Undirbúningur var langur, enda nauðsynlegt að tímasetja svona ferð með góðum fyrirvara, fræðast, lesa greinar og bækur, fá fyrirlesara um sögu Vesturfaranna, bókmenntir þeirra, land og mannlíf, rýna í ættir og reyna að finna tengsl. Sumum tókst það með þaulskipulagðri vinnu, öðrum ekki. Í því sambandi er vert að benda á Vesturfarasetrið á Hofsósi, þar sem unnið er aðdáunarvert starf í upplýsingaskyni. Þetta setur er fróðleiksbrunnur.

Fimmtungur þjóðar í vestrinu

Mikið hefur verið ritað um Vesturheimsferðir okkar Íslendinga, sem spanna tímabilið 1873-1914. Talið er að á þessum árum hafi fimmtán þúsund Íslendingar farið vestur um haf, eða 20% af þjóðinni, og reis þessi bylgja hæst 1883-1888.

Á þessum sex árum fluttust fimm þúsund manns til Ameríku eða réttara sagt flúðu landið í einhverju versta kuldaskeiði sem herjað hefur á Íslandi um langt árabil.

Hlutfallslega fluttust flestir af Norður- og Austurlandi. Megineinkenni þessarra fólksflutinga frá Íslandi til Vesturheims var að við fórum til Kanada, ekki til Bandaríkjanna. Í fyrstu var förinni einkum heitið til vesturstrandar Winnipegvatns, Nýja Íslands. Þróunin varð reyndar sú að Winnipeg varð meginmiðstöð Íslendinga er fram liðu stundir. Til merkis um það og okkur ferðalöngum til undrunar og gleði, þá stendur stytta af Jóni Sigurðssyni, forseta, við aðalinngang þinghússins í Winnipeg.

Hitt sérkenni Vesturheimsferðanna var mikil þátttaka kvenna. Frá öðrum löndum fluttust miklu fleiri karlmenn. Ýmsu er borið við til skýringar. Frá Íslandi fóru heilu stórfjölskyldurnar úr sveitunum. Einnig var staða ógiftra kvenna í þéttbýli á Íslandi döpur. Fá atvinnutækifæri, svo þær áttu fárra kosta völ, annað en að verða vinnukonur, eða leita á vit ævintýra ? fara vestur.

Allt stórt í Ameríku

Aðalskipuleggjendur ferðarinnar og fararstjórar voru Jónas Þór, sagnfræðingur, með langa búsetu í Kanada þar sem hann stundaði framhaldsnám um sögu Vestur-Íslendinga, og Almar Grímsson, forseti Þjóðræknifélagsins. Allur þeirra þáttur var lofsverður.

Ferðin var afar skemmtileg og fróðleg með afbrigðum. Hópurinn samheldinn í meira lagi og til marks um styrkleika, var aldrei nokkurt frávik frá auglýstri dagskrá. Allar tímasetningar stóðust, þrátt fyrir fjöldann. Við ferðuðumst í tveim stórum langferðabílum og lögðum að baki suma dagana mörg hundruð kílómetra eftir sléttunum víðfrægu, akrar svo langt sem augað nam, þráðbeinir endalausir vegir á marsléttu landi. Allt er stórt í Ameríku. Risavaxnir flutningabílar með alls kyns vörur, tæki og dýr urðu á leið okkar. Lest ,,trukka” með svín var förunautur okkar um hríð. Einum ferðafélaganna, Jónasi Frímannssyni, varð þá að orði:

Vesturheims um vengi fríð,
vagnar óku tveir um hríð.
Í öðrum voru amerísk svín,
en í hinum þjóðin mín.
Sorglegt er að Rótarý
rekist í bland við svínarí.

Við fórum víða, heimsóttum fjölmennar borgir og fámenna bæi, sem að kjarna til voru Íslendingabyggðir, Árnes, Riverton, Mikley (Hekla Ísland), Lundar, Mountain og Gimli, mekka ferðarinnar, en þar var fyrsta íslenska nýlendan stofnuð 1875.

Alls staðar safnaðist fólk saman

Það var sterk upplifun að sækja heim þessar fámennu íslensku byggðir. Alls staðar mætti okkur hlýja og einlægni. Fólk safnaðist saman, spurði frétta, vildi rækt böndin og ýmsir voru langt að komnir í veg fyrir okkur til að grennslast fyrir um frændsemi. Kynni tókust og gleðin braust út. Gestrisnin var líka sönn. Í Lundar var efnt til móttöku í samkomuhúsinu. Íslenskt meðlæti var þar á kaffiborðinu sem heimamenn höfðu bakað eftir uppskriftum formæðra. Hámarki náði gleðin þegar tekið var við að syngja íslensk ættjarðarlög.

Við tókum þátt í Íslendingadögum, bæði í Mountain og Gimli. Frásögn af því er nú tilefni sjálfstæðrar greinar. Fólk flykkist þar að um langan veg, skrúðgöngur, ræðuhöld og fjallkona. Þarna ríkti karnivalstemmning, kátína og ærsl. Mér vitanlega voru þarna meðal annarra fjórir íslenskir hópar. Skagfirska söngsveitin hafði sig eðlilega mest í frammi og söng við mörg tækifæri.

Margt var að sjá og heyra um frumbýlingsárin, sumt ótrúlegar svaðilfarir og mótbyr, annað sigrar og velgengni. Talið er að almenn lestrarkunnátta og þekkingarþrá Íslendinga hafi skipt sköpum við að ná rótfestu og færni í ókunnu landi, sem var bæði hart en líka gjöfult. Margir Íslendingar komust seinna í góðar álnir og ábyrgðarstöður.

Minnisstæðar eru margar stundir og staðir, meðal annars við leiði Káins í Þingvallakirkjugarði.

Vísur Káins og kvæði voru vinsælt viðfangsefni í ferðinni og sögur þeim tengdar. Við myndarlegt minnismerki um Káin kastaði einn félaginn, Sigurjón Jóhnnesson, fram þessari limru:

Íslenskir kannast við Káin,
með kímninnar orðbeittan ljáinn,
Mörg vísa eftir hann
vitnar um mann,
sem lifir þótt löngu sé dáinn.

Skammt þar frá er Garðakirkja. Þar úti fyrir er minnismerki um stórskáldið og bóndann Stephan G. Stephansson. Minnismerkið er stór steinn úr landareigninni, með greyptri plötu hvar á stendur meðal annars:

,,Hér kom íslenskt afl,
sem hóf upp úr jörðu steininn.“

Sterkustu minningar mínar frá þessari merku ferð eru án efa persónuleg samtöl við fjölmarga Vestur-Íslendinga úr þessum litlu snotru bæjum, hlýða á frásagnir þeirra og finna væntumþykjuna. Vald þeirra á íslensku var undravert. Við hittum til dæmis miðaldra stórbónda, Davíð að nafni, fæddan í Kanada, sem talaði ótrúlega fallega íslensku og það sem vakti sérstaka athygli mína var, að hann hafði beygingarfræðina algerlega á sínu valdi, svo og magnaðan orðaforða. Aðspurður um hæfni sína sagði hann okkur að á unglingsárum sínum hefði hann hlýtt á ógrynni íslenskra frásagna og ritverka á bandi þegar hann var að hossast á dráttarvélum á stórbýli fjölskyldunnar.

Hér hefur verið stiklað á örfáum steinum í annars viðburðarríkri og eftirminnilegri ferð. Fátt eitt er nefnt. Eitt er víst, við urðum margs vísari, hópurinn varð enn þéttari og mikil löngun að fræðast enn meir um stórmerkilegan þátt í sögu okkar Íslendinga.



Efnisvalmynd

Eining
Þetta vefsvæði

Meginmál