2003 Færeyjar

Færeyjaferð Rótarýklúbbsins Borga sumarið 2003

Ferðanefnd Rótarýklúbbsins Borga í Kópavogi (Bolli R. Valgarðsson, Anna Sigríður Einarsdóttir og Gunnar Sigurjónsson) skipulagði ferð til Færeyja, í kring um Ólafsvökuna, síðustu vikuna í júlí 2003. Þáttakendur voru 20. Voru þeir í fimm bílum sem ekið var um borð í Norrænu á Seyðisfirði 24. júlí. Viku síðar snéri hópurinn aftur og voru allir gleiðbrosandi og endurnærðir eftir einstaklega ánægjulega ferð.

Undirritaður telur þessa Færeyjaheimsókn vera langsamlega skemmtilegustu utanlandsferð sína fram til þessa. Það sem helst stuðlar að þessu viðhorfi voru skemmtilegir og samhentir ferðafélagar, sérlega jákvætt viðmót eyjaskeggja til Jáaranna eins og þeir kalla Íslendingana vegna þess hversu oft við segjum já, höfðinglegar og ljúfar móttökur hvert sem farið var, gott veður flesta daga og síðast en ekki síst skortur á allri ofskipulagningu. Iðulega ákváðum við nefnilega að kvöldi hvert halda skyldi næsta dag. Magnús Jóhannsson var tilnefndur sem fararstjóri og sinnti hann verkefninu af stakri prýði. Ekki spillti heldur fyrir að í Þórshöfn fengum við tækifæri til að fara á tónleika hjá Eivöru Pálsdóttur en fimm ferðafélaganna (Ásrún, Elín, Garðar, Soffía og Valgerður) sem öll vinna í Söngskólanum í Reykjavík töldu sig öll eiga mismikinn hlut í eftir nám hennar við skólann. Um leið og Eivör söng máluðu þarlendir myndlistarmenn tónlistina á pappír og voru verkin seld að tónleikunum loknum. Aldeilis ógleymanlegt, frumlegt og frábær flutningur í alla staði. Þá spillti ekki fyrir ánægjunni boð hópsins heim til Poul Mohr, þáverandi ræðismanns Íslands í Færeyjum á síðara kvöldi Ólafsvökunnar. Dönsuðu ferðafélagarnir og skemmtu sér að sið innfæddra með stórfjölskyldu Pouls. Vöktu þjóðbúningar Færeyinganna, þar sem annars staðar á Ólafsvökunni, verðskuldaða athygli. Þeirra eru jú í litum en okkar enn í sauðalitunum, svart-hvítir, og heldur þunglyndislegir í samanburðinum. Nóg um það. 

Nýkomin til Þórshafnar, árla föstudagsins, héldum við beinustu leið til Leirvíkur. Þar var bílum lagt og stigið um borð í ferju sem flutti okkur á fund gestgjafanna þennan dag, félaga okkar í Rótarýklúbbi Klakksvíkur en bærinn er vinabær Kópavogs eins og margir vita. Undir dyggri forystu Palla Ziskasonar, fyrrum forseta, gerðu klúbbfélagarnir í Klakksvík okkur daginn ógleymanlegan. Fyrst hélt hópurinn með skipi til Húsar á Kalsoy. Gengið var í grenjandi rigningu að Syðradal þar sem boðið var upp á þjóðlegan mat hjá húsráðendunum Köllu og Ásbirni Lómakletti. Síðar um daginn var farið í rútuferð um þessa gangaríku eyju sem gárungar nefna stundum Flautuna vegna þess hversu sundurgrafin hún er. Farið var alla leið í Tröllanes. Létti til þegar leið á daginn. Eftir skipsferð til Klakksvíkur hófst skoðunarferð um Borðoy og Viðoy og var ekið með okkur alla leið norður á Viðareiði þar sem vinaklúbburinn bauð til sameiginlegs kvöldverðar. Fljótlega eftir matinn var farið að stíga færeyskan dans. Skemmti fólk sér konunglega og vakti afburða ljóðakunnátta gestgjafanna verðskuldaða athygli. Um miðja nótt var ekið til Þórshafnar. Flestir héldu til á Hótel Færeyjum en yngra fólkið í hópnum; hjón með „þrjár dætur“ (= „Die Drei Damen“)  bjuggu á Vallaraheiminu, nýju farfuglaheimili við hlið hótelsins.  

Næstu tvo daga var farið í skoðunarferðir. Fyrri daginn var farið í langa skoðunarferð um Eysturoy þar sem ekið var norður að Eiði og þaðan fram hjá Slættaratindi (882m) út í Gjógv og um Funningur til Norðskála. Daginn eftir ókum við til Vestmanna og Kvivik en mættum tímanlega í Þórshöfn á tónleika Eivarar í Listasafninu. Einstakt blíðviðri var báða þessa daga.

Á mánudegi tóku ferðalangarnir virkan þátt í fyrra degi Ólafsvökunnar í Þórshöfn eftir að hafa brugðið sér um morguninn til Kirkjubæjar. Um kvöldið var áðurnefnt boð hjá ræðismanni Íslands. Seinni dag Ólafsvökunnar var farið árla morguns til Vestmanna og siglt með Palla Lamhauge undir hrikaleg björg við Vestmannasund. Lítið bar þar á bjargfugli!  Frá Vestmanna lá leiðin yfir á Vogey og var farið um ný jarðgöng. Eftir að hafa kvatt Garðar á flugvellinum var eyjan skoðuð alla leið vestur að Bøur þar sem mikið er af gömlum húsum. Þar blasa við Mykines, vestasta eyjan í klasanum, Tindhólmur og Drangarnir. Fyrri hluta heimfarardagsins eyddum við í Þórshöfn. Allt of fljótt lauk þessari aldeilis frábæru ferð þegar ekið var út úr ferjunni á Seyðisfirði eftir hvorki meira né minna en 619 km akstur á erlendri grund!

Tekið saman 18.2.2008 fyrir heimasíðu klúbbsins af Karli Skírnissyni