2011

Hrauneyjar, Veiðivötn

Helgina 24.-25. september var farið í hina árlegu og ómissandi jeppaferð Borga. Lagt var af stað frá MK á 13 jeppum kl. 8:30. Þetta var að hluta til óvissuferð þannig að við vissum ekki nákvæmlega hvert ferðinni væri heitið. Upphaflega átti að gista í Dalakofanum við Laufafell en sá skáli tekur ekki nema 36 í kojur og var allt of lítill þannig að í staðinn var gist í Hrauneyjum.

Við fórum sem leið liggur á Selfoss, Árnes og fyrsta alvöru stoppið var við Hjálparfoss. Linda Udengård var fararstjóri og er hún að verða ómissandi í því mikilvæga starfi. Minna var sungið í þessari ferð en mörgum öðrum enda vantaði því miður Garðar Cortes. Þeim mun meira var innbyrt af „meðulum“ ýmis konar. Veðrið í þessari ferð var allavegana, frá logni yfir í storm og frá glampandi sól yfir í grenjandi rigningu. Einhvern veginn var það samt svo að þegar mestu máli skipti var veðrið afbragðs gott.

Eftir stutt á- og aftöppunarstopp í Hrauneyjum var haldið yfir Tungnaá hjá Hrauneyjarfossvirkjun, að Vatnsfelli og framhjá hinu sérkennilega fjalli Þóristindi. Nú var stefnan tekin á Hraunvötn og ekið um það ægifagra landslag sem þau mynda og Snorri Konráðsson fræddi okkur um veiðistaðina. Loks komum við að Skálavatni þar sem hádegisverður var galdraður upp úr skrínunum. Hér skal það tíundað að Sigurður R. Gíslason jarðfræðingur, eiginmaður Málfríðar Kristiansen, var óþreytandi að fræða okkur um jarðfræði alla ferðina og var hans þáttur í að gera ferðina ánægjulega ekki lítill.

Eftir næringu, meðul og sögur var haldið í suðvestur meðfram Veiðivötnum og endað uppi á toppi Snjóöldu í 930 m hæð. Þetta var ævintýralegt í meira lagi en þarna er frábært útsýni til norðurs og vesturs þó svo að skýjafar væri aðeins að stríða okkur. Þarna blasa við Snjóölduvatn, Skyggnisvatn og hlykkirnir í Tungnaá við Svartakrók.

Eftir þennan stórbrotna endapunkt var haldið sömu leið til baka nema að við kláruðum Vatnahringinn og fórum síðan yfir Fossavatnakvísl og nokkru síðar Vatnakvísl og enduðum í Hálendismiðstöðinni Hrauneyjum. Í Hrauneyjum var vel heppnuð veisla um kvöldið að hætti hússins.

Næsta morgun var haldið að Sultartangavirkjun, framhjá Hólaskógi og að Háafossi og Granna þar sem þeir falla ofan af hálendisbrún niður í Þjórsárdal.

Alla ferðina voru einstaklega fallegir haustlitir og á það ekki síst við um Tangaleið sem liggur ofan Hreppafjalla frá Hólaskógi og að Gullfossi. Mjög skemmtilegt var að koma að Háafossi að ofanverðu enda var stoppað þarna drjúga stund. Nú var ekið vestur yfir Fossá á grýttu vaði en úr því gerðist veður þungbúið með rigningarsudda og litlu skyggni en þarna er fallegt útsýni í björtu veðri.

Stoppað var í Helgaskála fyrir hádegissnarl en þar rigndi drjúgt. Fara þarf yfir Stóru-Laxá tvisvar á grýttum vöðum og nú fór veðrið að lagast aftur og þegar komið var að Gullfossi að austanverðu var komið fínasta veður. Það tekur um 20 mín. að ganga frá bílastæðinu að Gullfossi og það er sannarlega þess virði, fossinn er ekki síðri frá þessu sjónarhorni.

Þarna fór maður að hugsa að allt væri jafn frábært í þessari ferð, félagsskapurinn, veðrið, landslagið og haustlitirnir. Eftir frábærlega vel heppnaða ferð skildust leiðir þarna á bílastæðinu austan við Gullfoss. (Magnús Jóh.).