2010

Kerlingafjöll, Setrið

Helgina 18.-19. september fór jeppafólk Borga aftur á vit Kerlingarfjalla og Seturs á samtals 14 jeppum. 3Eins og í fyrri ferðinni árið 2005 var farið frá Tungufelli upp með Hvítá að austanverðu og fyrsta alvöru stoppið var í Svínárnesi. Þar var smakkað á nestinu og tekin inn „meluð“ í hæfilegum skömmtum og sungið.

Áfram var haldið norður Leppistungur og stoppað á hæð þar sem var frábært útsýni til Kerlingarfjalla og allt um kring en Bláfell og Jarlhettur gnæfðu í vestri.20 Þarna á hæðinni sagði Sveinbjörn Sveinbjörnsson okkur frá æskuárum sínum í Hreppunum og fyrstu kynnum sínum af smalamennsku á þessum víðáttumiklu afréttarlöndum. Rétt við vaðið á Kerlingará er sæluhúsið í Leppistungum og þar var stoppað og tekið inn meira af „meluðum“ og sungið meira.

Næst var haldið að skálabyggðinni í Kerlingafjöllum og fræðst um staðinn en Linda Udengård var fararstjóri og henni til aðstoðar gamli félagi okkar Skúli Skúlason. Baldur Þorsteinsson, eiginmaður Lindu, var á sínum tíma starfsmaður í skíðaskólanum og vissi bókstaflega allt um staðinn.2

Næst var haldið í austur norðan Kerlingarfjalla en þar liggur leiðin um Illahraun. Þetta er ákaflega falleg leið en vegurinn er vondur og seinfarinn og þarna sprakk hjá Haraldi Friðrikssyni. 9Allir komust þó í Setrið sem er sennilega flottasti fjallaskáli landsins og í eigu Ferðaklúbbsins 4x4. Þarna var frábær grillveisla um kvöldið og mikill gleðskapur með söng og öllu tilheyrandi enda var Guðmundur Jóelsson með gítarinn.

Daginn eftir var sama dýrðarveðrið og var byrjað á því að aka út á Fjórðungssand til að skoða útsýnið sem var stórfenglegt, Hágöngur og Vatnajökull í austri, Hofsjökull í norðri og Kerlingarfjöll í vestri með Kisubotnahnjúk næst okkur. Nú var haldið til baka um Illahraun og eftir að bögglast yfir endalausa skorninga var komið aftur að skálabyggðinni í Kerlingarfjöllum. Linda og Baldur fræddu okkur meira um sögu skíðaskólans og þau sýndu okkur líka svæðið þar sem skíðabrekkurnar voru áður, en skólinn lagðist síðan af fyrir löngu vegna snjóleysis.4

Næst fórum við í Hveradali og skoðuðum þá fjölbreyttu og fallegu hveri sem þar er að finna og var það frábær endir á ferð okkar um Kerlingarfjöll. Eftir stutt stopp við skálana var ekið út á Kjalveg en þar skiptist hópurinn, sumir fóru beint í bæinn en aðrir fóru lengra inn á Kjalveg á vit nýrra ævintýra; við vildum nefnilega skoða hinn fræga Beinahól.16 Þarna urðu Reynistaðabræður úti árið 1780 og verður sú saga ekki rakin hér en á hólnum stendur steinn til minningar um þennan atburð. Þessi steinn var reistur árið 1971 og einn af hvatamönnunum var Gunnar faðir Valgerðar eiginkonu Inga Kr. Stefánssonar.1

Af Kjalvegi liggur misógreinilegur slóði um 7 km leið að Beinahóli og þegar við vorum komin rúmlega hálfa leið gáfumst við upp og gengum restina enda var ökuhraðinn minni en gönguhraði. Það er talsverð upplifun að koma á þennan stað og hugsa um þá voveiflegu atburði sem þarna urðu.

Allir komust svo klakklaust til baka uppá veg og við héldum glöð til byggða eftir frábæra ferð.7

 

(Ritað eftir minni haustið 2011, Magnús Jóh.)