2009

Fjallabaksleiðir nyrðri og syðri

Vel heppnuð vinatenging tveggja norrænna Rótarýklúbba með jeppaferð.

 

Hinn 11. september 2009 rann upp stór dagur hjá Rótarýklúbbnum Borgum í Kópavogi því von var á félögum úr Nörrköping-Louis de Geer Rotaryklubb frá Svíþjóð.fe10

Klúbbarnir tveir höfðu myndað með sér vinatengsl nokkru áður og voru að hittast í fyrsta skiptið. Forseta klúbbsins, Steingrím Jónsson, höfðu klúbbfélagar að vísu hitt áður, þar sem hann hafði nokkrum sinnum mætt á fundi hjá Rótarýklúbbnum Borgum.fe11

 

Móttaka var í Gerðarsafni í Kópavogi um kvöldið þar sem klúbbfélagar kynntu sig og þar kom strax í ljós að klúbbfélagar og makar beggja klúbbanna smullu saman eins og aldagamlir vinir. Félagarnir nutu léttra veitinga og spjölluðu saman og var ekki að sjá annað en að allir skemmtu sér hið besta.fe8

 

Næsta morgun var ákveðið að hittast við hótel gestanna og leggja árla af stað í jeppaferð um hálendi Íslands, Fjallabaksleiðirnar nyrðri og syðri. Rótarýklúbburinn Borgir fer árlega í jeppaferð um óbyggðir Íslands og vildi svo vel til að ein slík ferð hafði verið fyrirhuguð einmitt á sama tíma og heimsókn gestanna frá Svíþjóð. Rótarýklúbburinn Borgir er svo lánsamur að margir félagar hans eru þaulvanir fjalla- og jeppamenn sem leiðbeina og kenna hinum óreyndu félögum sínum í óbyggðaferðum.fe9 Í svona ferðum kemur best í ljós hversu gott er að vera einmitt í Rótarýklúbbi því þar getur komið sér vel að hafa presta, tannlækna, lækna, hjúkrunarkonur, bifvélavirkja, lögfræðinga o.s.frv. allt getur jú gerst í óbyggðaferðum. Einn Rótarýfélaginn hafði útvegað litla fjallarútu til fararinnar þar sem hópurinn var svo stór að það komust ekki allir í fjórtán jeppa íslensku Rótarýfélaganna. Fyrir utan hótelið var ákveðið að gestirnir myndu velja sér ferðafélaga og vorum við hjónin svo heppin að Lena og Agneta völdu okkur. fe7Þvílík himnasending sem þær voru, báðar mjög skemmtilegar og yndislegar í alla staði. Sem betur fer virtust allir jafn heppnir með ferðafélaga. Veðrið var með besta móti en það hafði rignt mikið dagana á undan svo árnar voru óvenju vatnsmiklar og þá kom sér vel að hafa tvö fjórhjól með í för og félaga á þeim sem fóru ávallt í könnunarleiðangur þvers og kruss yfir árnar til að geta vísað á bestu leiðina yfir þær. Fjallasýn var sæmileg en þó ekki svo góð að jöklasýn væri eins og best verður á kosið. Þó bjarmaði af jöklum inn á milli. fe5En í staðinn fengum við mjög tæra og skýra nærmynd af landslaginu sem skartaði sínum fegurstu haustlitum. Margar árnar virtust farartálmar við fyrstu sýn en með góðra félaga hjálp komust allir klakklaust yfir þær. Í byrjun var ekki laust við að færi um íslensku og erlendu Rótarýfélagana og einstaka hræðsluóp braust fram á varir þegar farið var yfir fyrstu árnar en smám saman fóru menn að slaka á og treysta betur bílstjórunum. 

Víða var gott að  hafa vaðið fyrir neðan sig.   fe4

 

Síðla dags eftir margar óbrúaðar ár og hrjóstrugt landslag, hrikalegt í fegurð sinni, var komið í náttstað í HvannaSkálinn……. Félagar fundu sér kojur í tuttugu manna herbergjum, tóku upp fleyga og snarl, settust niður og spjölluðu á meðan ferðanefndin var önnum kafin við að útbúa glæsilegan kvöldverð handa 59 manns. Eftir matinn tóku nokkrir félagar upp hljóðfærin sín, söngtextum var úthlutað og upphófst fjöldasöngur og mátti vart á milli sjá hvor klúbburinn skemmti sér betur. Nú kom sér vel að hafa á að skipa doktor í tónlist, skólastjóra og rjómann af kennurum Söngskólans í Reykjavík. Seint og um síðir var lagst til hvílu. fe3Nóttin leið tíðindalítil nema einn félagi datt úr efri kojunni án þess að meiða sig að ráði, þurfti ekki læknis við. Sá var að halda upp á 40 ára brúðkaupsafmæli sitt og hefur líklega haldið einum of vel upp á það eða þá  að eiginkonan hafi fengið bakþanka um ágæti hans. En fallið fór betur en dynkur gaf til kynna. Ekki veit ég til að tónskáld hafi verið með í för en ég er viss um að ef svo hefði verið hefði hann náð að semja á örskots stundu bestu hrotusymfóníu sem heyrst hefur. Því þarna upphófst einn besti hrotukór sem ég hef heyrt. Það vantaði ekkert í tilþrifin, allur tónskalinn hljómaði og þar mátti heyra æsilegar, undur mjúkar, drynjandi, fisléttar og andkæfandi hrotur.     fe2

 

Seinni ferðadagurinn var ekki síðri. Ekið var um síbreytilegt landslag um úfin hraun og slétt, svarta sanda, ár, gjár, upp og niður þverhnípt hæðardrög og var jafnvel ekið á vatni, fararstjórarnir létu ekkert aftra för sinni. Um hádegisbil var áð, nesti tekið úr bílunum og bauð íslenski hópurinn sænsku félögum sínum að smakka svið, rófustöppu, flatkökur með hangikjöti, kleinur, harðfisk, hákarl og brennivín svo eitthvað sé nefnt. Þessi matur var þeginn með þökkum og snæddur undir fínlegum regnúða íslenskrar háfjallastemningar. Það voru þreyttir og sælir ferðalangar sem komu heim á hótel og heim til sín um kvöldið. Vart er til betri leið til að kynnast náið vinaklúbbi sínum en í ferðalagi á öræfum í náinni snertingu við móður jörð, náttúru og menn.fe1

Sameiginlegur fundur klúbbanna var síðan haldinn næsta kvöld í Nýja safnaðarheimili Kópavogskirkju. Þar urðu aftur fagnaðarfundir og táruðust margir þegar að skilnaðarstundu kom síðla kvölds. Skipst var á nöfnum og netföngum. Á skilnaðarstundinni var þó ljósglæta þar sem hópurinn ætlaði að hittast aftur að ári í Norrköping þegar Rótarýklúbburinn Borgir mun endurgjalda heimsóknina. Þangað til skartar borð mitt fallegum sænskum dúk sem við hjónin fengum sendan og minnir á góða sænska Rótarývini.

 

Anna Sigríður Einarsdóttir