2008
Hrafntinnusker
Laugardaginn 27. september 2008
Snemma morguns þennan laugardag héldu Borgarar og gestir þeirra af stað frá Rauðavatni á 15 jeppum. Við upphaf Dómadalsleiðar bættist Ágúst Guðmundsson við á 16. jeppanum og við Sátubarn bættust í hópinn Ingi Ingvarsson ásamt félaga sínum á tveimur fjórhjólum. Þeir Ágúst og Ingi ásamt Snorra Konráðssyni voru farastjórar í þessari ferð. Við Sátubarn er farið af Dómadalsleið í átt til Rauðfossafjalla, Pokahryggs og Hrafntinnuskers. Leiðin liggur austan Rauðfossafjalla en þau draga nafn sitt af Rauðfossum sem eru slæðufossar, rauðir af mýrarrauða, og sjást þeir vel af Dómadalsleið. Síðan er farið yfir Pokahrygg og smám saman niður í Reykjadali þar sem er mikið jarðhitasvæði. Farið er framhjá hinu tignarlega Hrafntinnuhrauni, yfir kvíslar úr Markarfljóti og að íshellunum sem eru austan í Hrafntinnuskeri. Þetta svæði liggur hátt, sennilega yfir 800 mys, og var þarna dálítill snjór mest í giljum og lækjarfarvegum en einnig í vegslóðanum. Íshellarnir hrynja oftast yfir sumarið og var ekki mikla hella að sjá en meðan við stöldruðum þarna við var veðrið afleitt, hvasst og snjókoma. Ekki var reynt að fara slóðina í átt að skálanum við Hrafntinnusker enda virtist hún illfær. Bílar voru misvel búnir eins og gengur og þurfti nokkrum sinnum að draga. Nú var haldið niður með Markarfljóti að Laufafelli og þarf þá að fara tvisvar yfir fljótið en ekki var mjög mikið vatn í því. Við Laufafell er skáli, Dalakofinn, og var hann heimsóttur. Við tróðumst inn í kofann og sungum Dísukvæði og fleiri ættjarðarlög við harmonikkuundirleik Bjarka Sveinbjarnarsonar. Eiginlega var aldrei stoppað til að snæða og komum við Elín með mest af nestinu okkar heim aftur. Þetta var eiginlega eini gallinn á ferðinni sem var að öðru leyti í alla staði frábær. Úr Dalakofanum var haldið í átt til Keldna og á þeim slóðum dreifðist hópurinn. Við Hrafntinnusker sprakk hjá Friðgerði og í Skógshrauni skammt frá Keldum sprakk hjá Bjarnheiði. Gert var við bæði dekkin að hætti jeppakarla, þ.e. settir voru tappar í götin án þess að taka hjólið undan. Hjá Bjarnheiði og Sigfinni voru tvö göt og dugði ekkert minna en tveir tappar í annað og þrír í hitt gatið. Eftir þetta mælti Sigfinnur:
Þetta var fimm tappa ferð
og fari ég aðra í bráð
með Ragnari á Rauðku ég verð
rólegur af hreinni náð
En einn af máttarstólpunum í ferðinni var að sjálfsögðu Ragnar Th. á stóra Rauð (nafnið Rauðka er skáldaleyfi Sigfinns). Í ferðina kom einnig Skúli Skúlason fyrrverandi félagi í Borgum og var gaman að hitta hann aftur. (MJ)