2006
2006 Langavatnsmúli og Sópandaskarð
Mýra- og Dalasýsla – um Sópandaskarð – ferðaáætlun og ferðasaga.
Ferðaáætlun
Lagt er af stað frá Select við Vesturlandsveg kl. 9.00 árdegis.
Leiðin liggur til að byrja með um púströrið undir Hvalfirði og þaðan sem leið liggur til Borgarness. Þar fylla ökumenn á ökutæki sín og þeir sem þungir eru upp á morgnana kynnu að vilja byrgja sig upp af nesti til að maula yfir daginn. Hafið með hlýja úlpu og góða skó, jafnvel stígvél til vara í farangursgeymslu, húfu og vettlinga. Það er aldrei að vita nema við verðum úti á leiðinni.
Frá Borgarnesi ökum við til vinstri við Snæfellsnesafleggjara, ökum yfir Langá og beygjum eftir það fljótlega til hægri í átt að langavatni. Þegar ekið er úr Langavatnsdal í Mýrasýslu yfir í Dali er farið um Sópandaskarð. Það liggur á milli Þrúðufells að vestan og Víðimúla og Hrútafells að austan og er í 377 m hæð. Við ökum niður í Laugardal og þaðan í Hörðudal.
STAÐHÆTTIR
Langavatnsdalur skerst inn í hálendið milli Mýrar- og Dalasýslna. Þar lá fyrrum alfaraleið og afréttur fyrr og nú. Langavatn með afrennsli sínu, hinni rómuðu laxveiðiá, Langá, prýðir landslagið þar. Norðan vatnsins er dalurinn breiður og grösugur. Þar eru slægjulöng, sem voru notuð í grasleysisárum, síðast 1918.
SAGNIR HERMA…
Sagnir herma, að þar hafi verið kirkjustaðurinn Borg og talsverð byggð sem lagðist í eyði í svarta dauða í kringum 1400. Bær var reistur í dalnum árið 1811 á rústum Borgar. Eldurinn á bænum slokknaði í febrúar 1813 og bóndinn varð úti, er hann var að sækja eld. Kona hans og tvö börn sultu næstum í hel á góunni næsta vetur, en það var til bjargar, að annað barnanna komst til byggða í hjálparleit. Það stal hesti á heimleiðinni og öllum þremur var refsað ómannúðlega fyrir tiltækið.
DAUÐ NAUT
Á 19. öldinni var dalurinn notaður til beitar fyrir naut á sumrin þar til þau fundust öll dauð í vatninu án skýringar. Egla segir frá því, að Þorsteinn Egilsson hafi látið hlaða garð milli Gljúfurár og Langavatns, þar sem hann geymdi fé sitt. Sagt er, að enn þá sjáist merki um hann. Bílvegurinn að Langavatni liggur frá Svignaskarði.
NJÓSNASTAÐUR
Fyrir Svartadauða var búið í Laugardal og á 13. öld bjó þar Snorri Þórðarson. Hann fylgdi Sturlungum að málum og féll með þeim á Örlygsstöðum árið 1238. Það má nærri geta að gott hefur verið fyrir Sturlunga að hafa fylgismann sinn búandi við leiðina um Sópandaskarð. Hann gat þar haldið úti njósnum um komu óvina. Aðrir slíkir lykilsstaðir hafa verið við Haukadalsskarð og Bröttubrekku.
BV hefur aðeins einu sinni farið um Sópandaskarð, þá ríðandi. Það var sumarið 2004. Við riðum frá Grímsstöðum á Mýrum, um hraun og grasleysu um sinn, komum svo við í leitarmannakofanum sem heitir að Torfhvalsstöðum. Héldum áfram um Sópandaskarð og áfram til Hörðudals og þaðan í Snóksdal. Þetta var 12 tíma reið yfir nótt, komum um 7 í hús og sofnuðum í heita pottinum!
FALLEGT
Þegar ekið er inn Langavatnsdal þá blasir leiðin um skarðið fljótlega við á vinstri hönd. Sagnir herma að talsverð byggð hafi verið í Langavatnsdal fyrir Svartadauða. Þá lagðist hún af en seinna mun aftur hafa verið reistur bær þar. Nú er engin byggð í Langavatnsdal. Ekki minnist ég þess að neinar teljandi torfærur hafi verið á þessari leið. Vegurinn um Sópandaskarð er ágætur nema kannski svolítið grýttur á köflum. Af myndum að dæma er fallegt útsýni úr Sópandaskarði bæði út Laugardal og eins inn í Þrúðardal
LAXDÆLA
Þeir sem ætla að fara vestur í Dali gerðu margt vitlausara en að lesa Laxdæla sögu áður. Yfirleitt er ekki um nákvæmar leiðarlýsingar að ræða í Laxdælu frekar en í öðrum fornsögum, en héraðslýsing er þar ágæt. Hún veitir aukna tilfinningu fyrir Dölunum enda gerist hún að mestu leyti þar eða í nærsveitum þeirra.
Leiðin um Sópandaskarð hefur frá fornu fari verið all fjölfarin. Hennar er getið í Laxdælu þegar þeir Þorgils Hölluson og synir Bolla, Bolli og Þorleikur (sem ég vildi að Egill Logi héti en fékk ekki um ráðið) fara ásamt sjö öðrum að Helga Harðbeinssyni í Skorradal. Þessi ferð er undantekning hvað varðar nákvæmni í leiðarlýsingu.
Þeir leggja af stað frá Tungu í Hörðudal og síðan segir:
Þeir ríða leið sína upp til Sópandaskarðs og yfir Langavatnsdal og svo yfir Borgarfjörð þveran. Þeir ríða að Eyjavaði yfir Norðurá en að Bakkavaði yfir Hvítá, skammt frá Bæ ofan. Riðu þeir Reykjardal og svo yfir hálsinn til Skorradals og svo upp eftir skóginum í nánd bænum að Vatnshorni, stíga þar af hestum sínum.
Leiða má getum að því að frá Langavatni hafi þeir farið niður hjá Grísatungu og að Svignaskarði og þaðan yfir Gljúfurá og að Eyjarvaði á Norðurá. Í Hænsa-Þóris sögu segir að Eyjarvað sé fyrir ofan Stafholt. Þar sem brú liggur yfir Norðurá skammt frá versluninni Baulu er Hólmavað. Það er svolítið fyrir ofan Stafholt og gæti verið sama og Eyjarvað.
SNORRI Í HVAMMI
Einnig eru til heimildir um að Snorri Sturluson hafi farið um Sópandaskarð sumarið 1225 með 20 manns. Hann er á leið vestur í Hvamm í Hvammssveit í boði Þórðar bróður síns. Á leiðinni til baka naut hann fylgdar Þórðar bróður síns, til að verja hann fyrir Sturlu bróðursonar þeirra Sighvatssonar á Sauðafelli. Snorri hefur sjálfsagt valið leiðina um Sópandaskarð vegna þess að leiðin um Bröttubrekku lá hjá Sauðafelli. Sturla hafði komið sér þar upp miklu virki og liðsafnaði.
Snorri hefur væntanlega farið Bugana niður með Reykjadalsá. Síðan Kroppsmela og yfir Flóku að Hvítá og þaðan að Bakkavaði. Svo sömu leið og þeir Þorgils Hölluson höfðu komið að vestan um Eyjarvað á Norðurá.
EGILS SAGA
Þegar brúðkaup Þorgerðar Egilsdóttur og Ólafs pá er haldið á Höskuldsstöðum í Laxárdal sækja það Egill Skallagrímsson og Þorsteinn sonur hans og nokkurt fjölmenni úr Borgarfirði. Þessi hópur hefur væntanlega farið um Sópandaskarð þó að þess sé ekki getið í Laxdælu.
Í Egils sögu er þess getið að þegar Böðvar sonur Egils drukknaði hafi verið sent eftir Þorgerði vestur í Hjarðarholt. Böðvar hafði verið á kaupstefnu í Hvítá og var að flytja heim varning sinn. Egill tók þennan missi að vonum mjög nærri sér og síðan segir: Lá hann þar (á Borg) þann dag og nóttina eftir. Enginn maður þorði að mæla við hann, en hinn þriðja morgun, þegar er lýsti, þá lét Ásgerður skjóta hesti undir mann, reið sá sem ákaflegast vestur í Hjarðarholt og lét segja Þorgerði þessi tíðindi öll saman, og var það um nónskeið er hann kom þar. Hann sagði henni og það með, að Ásgerður hafði sent henni orð að koma sem fyrst suður til Borgar. Þorgerður lét þegar söðla sér hest og fylgdu henni tveir menn. Riðu þau um kvöldið og nóttina, til þess er þau komu til Borgar.
Það er augljóst að þau hafa farið um Sópandaskarð enda hefði verið talsverður krókur að fara um Bröttubrekku.
Af Gunnlaugs sögu 5. kafla má marka að leiðin úr Langavatnsdal til Borgar hafi legið niður með Langá. Þeir Þorsteinn á Borg og Gunnlaugur ríða upp í Langavatnsdal til selja Þorsteins að Þorgilsstöðum að vitja hrossa. Að því loknu fara þeir til baka. Í Gunnlaugs sögu segir: ........og riðu heimleiðis ofan með Langá. Meðfram ánni hefur væntanlega besta leiðin legið, mýrar síst hamlað för.
GRETTIS SAGA
Á einum stað í Grettis sögu segir frá því að Grettir hafði dvalið fyrst á Arnarvatnsheiði og síðan í hellinum með Hallmundi. Þaðan fer hann vestur til Borgarfjarðar og þaðan til Breiðafjarðardala að leita ráða hjá Þorsteini Kuggasyni í Ljárskógum. Þar fyrir vestan var farið að fjölga óvinum hans og ráðleggur Þorsteinn honum að fara suður á Mýrar. Fer Grettir þá í Hólm í Hítardal til Björns. Ekki greinir sagan frá því hvaða leið hann hefur farið. Kannski hefur hann farið um Svínbjúg, Bjúgsveg svonefndan, en hann hefur líka getað farið um Sópandaskarð í Langavatnsdal og þaðan í Hítardal sömu leið og Hítardalsprestar fóru en þeir þjónuðu Borg í Langavatnsdal. Einn þessara presta hét Guðmundur og varð hann úti í Gvendarskarði.
OG FLEIRI…
Árið 1219 leysti Eyjólfur Kársson í Flatey Guðmund biskup góða Arason úr haldi á Hvítárvöllum. Hann forðaði honum norður um Sópandaskarð. Samkvæmt Biskupasögum og Sturlungu hafði Kolbeinn Tumason tekið Guðmund fanginn. Árið 1263 ætla þeir Sturla Þórðarson sem bjó á Staðarhóli og Snorri sonur hans að sækja að Hrafni Oddssyni þar sem hann bjó í Stafholti. Hugsanlega hafa þeir farið um Sópandaskarð vestan úr Dölum. Í Sturlunga sögu segir eftirfarandi: Riðu þá suður um heiði og námu staðar í skóginum ofan frá Grísartungu. Þeir sendu mann ofan til Norðurár að vita hvort áin væri reið því að vatnavextir voru miklir eða hvort Hrafn væri heima í Stafholti. Kom aftur sendimaður þeirra og segir að áin væri óreið.
HEIMKOMA
Gert er ráð fyrir að verðin taki um 10 klukkustundir eða þar um bil og því má gera ráð fyrir að verða kominn heim til baka um kvöldmatarleytið eða þar um bil.
Frásögn af ferðinni
Laugardaginn 23. september 2006 héldum við rótarý Borgarar í okkar árlegu haustferð, að þessu sinni vestur í Dali um Sópandaskarð í blíðskaparveðri. Í för voru um 25 manns á 9 bílum, allt óbreyttum jeppum utan eins sem var á 38". Þessi leið er fær öllum jeppum, aka þarf með verúð og þolinmæði og ef vel tekst til þarf enginn að skemma neitt. Þetta er ekki leið fyrir jepplinga. Í okkar tilviki reyndi nokkuð á þolinmæði, sumum fannst leiðin alls endis ófær óbreyttum jeppum, einn beygði of snemma í beygju af því að hann var með mestu jólasveinana í klúbbnum um borð. Ferðin var ánægjuleg og áfallalaus í alla staði og tók um 9 klst. Þessar ferðir okkar eru okkur öllum í klúbbnum mikils virði því þær hrista hópinn þétt saman og nú er bara að hugsa fyrir næstu haustferð. Og gaman væri nú ef eldri kynslóðin í klúbbnum færi nú a láta sjá sig! Eftir að áð hafði verið við rústir Laugarár í Laugardal ofan Hörðudals kvaddist hópurinn formlega enda sumir á leið vestur eða norður í bústað en þeir sem suður fóru héldu um Heydali, sem er mun fallegri en Bröttubrekkuleiðin, sem þó er fljótfarnari enda malbikuð alla leið. MYNDIR