2004

Hrauneyjar, Faxasund, Langisjór

Laugardaginn 9. október var farið í hina árlegu jeppaferð Borga. Skúli Skúlason var fararstjóri eins og oft áður. Hópurinn hittist á 12 jeppum við Rauðavatn, snemma morguns vegna þess að löng ferð var fyrir höndum. Haldið var austur að Vegamótum, upp Landveg og í Hrauneyjar. Í Hrauneyjum var hleypt úr, tekin olía og pissað. Við fórum veginn sem liggur sunnan við Hrauneyjalón og síðan rakleitt í Landmannalaugar og áfram Fjallabaksleið nyrðri. Farið var sem leið liggur fram hjá Kirkjufelli og Halldórsfelli en í Skuggafjöllum, uppi á hæð, er skilti sem vísar í austur og á stendur Faxasund en þangað var ferðinni heitið.

Í fyrstu er slóðinn mjög ógreinilegur en lagast fljótlega. Þetta er ævitýraleg leið og ægifögur með Kattarhryggi og Faxa á vinsti hönd. Í Faxasundi eru nokkrir skemmtilegir staðir til að stoppa á og skoða sig um en þar eru m.a. óvenjulegar uppsprettur með mismjóum bunum beint út úr berginu og sérlega fallegum dýjamosa. Við fórum smá útúrdúr norður að Botnlangalóni við Tungnaá þar sem er útsýni yfir lónið og til Snjóöldufjallgarðs norðan Tungnaár. Litlu austar var komið að Lónakvíslalónum þar sem ekið er yfir ál á milli lónanna. Síðan var ekið rakleitt að Sveinstindi og Langasjó.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá Langasjó berum augum, ekki bara á myndum eða í hillingum, og það er eitthvað alveg sérstakt við þetta stöðuvatn og umhverfi þess. Veðrið var meinlaust en skyggni ekki gott þannig að maður sá í raun bara lítinn hluta af Langasjó en þrátt fyrir allt var þetta sterk upplifun.

Við ókum næst að skála Útivistar sem er sunnan undir Sveinstindi og síðan yfir á veg F235 sem er miklu betri vegur en sá um Faxasund. Þessi vegur liggur til baka út á Fjallabaksleið nyrðri og þegar þangað var komið er stutt í Eldgjá. Við stoppuðum í mynni Eldgjár en ekki var farið inn í gjána enda farið að kvölda. Þarna í mynni Eldgjár var þessari frábæru ferð í raun lokið og bara eftir að aka fram hjá Hólaskjóli, niður alla Skaftártungu og á þjóðveg nr.1.
(Ritað eftir minni haustið 2011, Magnús Jóh.)