2003
Krakatindur
Ferðin var farin laugardaginn 11. október í fallegu en frekar köldu veðri á 7 jeppum. Upphafleg áætlun fyrir þessa ferð var að fara Dómadalsleið, Krakatindsleið og síðan til baka út á Dómadalsleið um Reykjadali og Pokahrygg.
Við stoppuðum við Landvegamót en ástandið í sjoppunni var svo slæmt á þeim árum að þar voru ekki einu sinni seldar pylsur. Síðan var haldið sem leið liggur upp Land og að vegamótum Dómadalsleiðar en þar kom babb í bátinn. Þarna voru rallýkarlar búnir að loka leiðinni vegna keppni, þeir höfðu leyfi til að loka kl.10 en við komum þarna 9:50; Skúli Skúlason fararstjóri reyndi að tala þá til en án árangurs.
Til að forðast vandræði urðum við að snúa við og fórum þess í stað að Keldum og inn á Fjallabaksleið syðri. Þegar við fórum að nálgast Laufafell var komið í snjó sem hefur gjarnan þá náttúru að verða meiri og dýpri þegar ofar dregur. Þegar við komum að Dalakofanum við vaðið á Markarfljóti var allnokkur snjór í lautum og lægðum. Ekki er farið yfir Markarfljót á þessari leið heldur veg sem liggur rétt austan við Krakatind. Krakatindur er úfið og tindótt fjall sem stendur nokkurn veginn austur af Heklu. Á einum stað var allmikill skafl við veginn og þá gat Snorri Konráðsson ekki haldið aftur af sér og renndi í skaflinn til að festa bílinn; og þeir voru svo dregnir á þurrt. Á öðrum stað var hraunslóð þar sem talsvert hafði safnast af snjó en þar festi Haraldur Friðriksson sig og sína. Nálægt þessum stað mættum við nokkrum jeppum.
Fátt markvert bar til tíðinda eftir þetta og við komum síðan út á Dómadalsleið og héldum hana til vesturs út á Landveg og til byggða.
(Ritað eftir minni haustið 2011, Magnús Jóh.)