2002
Kerlingardalur, Þakgil, Reynisfjall
Eftir hrakningana í jeppaferð ársins á undan var ákveðið að fara í frekar létta ferð þetta árið. Lagt var upp laugardaginn 21. september. Við stjórnvölinn voru þeir Skúli Skúlason og Bolli Valgarðsson. Haldið var austur malbikið að Vík í Mýrdal.
Ekki leit vel út með veðrið því að dimm þoka lá yfir öllu. Þessi þoka angraði okkur af og til í ferðinni en það rofaði til inni á milli og í raun fengum við meinlaust og milt veður.
Skammt fyrir austan Vík, áður en kemur að Múlakvísl, er bærinn Höfðabrekka og þar var haldið inn Kerlingardal og yfir Höfðabrekkuheiði. Fyrr á árum lá reyndar þjóðvegurinn þarna inn eftir og síðan á brú yfir Múlakvísl á móts við Hafursey og þar austur yfir Mýrdalssand. Nokkrum árum eftir þessa ferð okkar voru reist talsverð mannvirki á Höfðabrekkuheiði við gerð kvikmyndarinnar sem byggir á Bjólfskviðu. Á þeim slóðum, efst á heiðinni, eru skemmtilega hrikalegar klettamyndanir með toppum, tindum og hellum sem gaman var að skoða. Þarna liggur ágætur vegarslóði langleiðina inn að Kötlujökli sem gengur suð-austur úr Mýrdalsjökli. Þarna er að finna vel gróið gil sem heitir Þakgil þar sem búið er að byggja upp gistiaðstöðu með þjónustumiðstöð, smáhýsum og tjaldstæði. Rétt við þessar byggingar er allstór hellir með borðum og bekkjum fyrir fjölda manns auk grillaðstöðu. Ég held að nafnið Þakgil hljóti að vera til komið vegna þessa myndarlega hellis.
Eftir kaffistopp í Þakgili var haldið upp hryggina vestan við gilið en þar liggur þröngur og brattur slóði sem þræðir hryggi og lautir langleiðina upp að jökli. Þetta var að mörgu leyti skemmtilegasti hluti ferðarinnar. Við fórum síðan sömu leið til baka um Þakgil og Höfðabrekkuheiði.
Þegar til Víkur kom var þokan að mestu horfin og við brugðum okkur þess vegna upp á Reynisfjall. Þarna uppi fengum við frábært útsýni til Dyrhólaeyjar í vestri og þar horfir maður ofan á Reynisdranga og að sjálfsögðu notuðum við tækifærið og rifjuðum upp nöfnin á hverjum dranga fyrir sig. Þarna uppi á Reynisfjalli skildu svo leiðir og hver fór sína leið til síns heima.
(Ritað eftir minni haustið 2011, Magnús Jóh.)