2001
2001, Einhyrningur, Krókur, Hungurfit
Snjóað hafði í fjöll og minnstu bílarnir voru þess vegna skildir eftir á Hellu. Haldið var inn Fljótshlíð, yfir Gilsá og áð við skálann á Einhyrningsflötum. Nú var stutt í snjóinn og það hélt áfram að snjóa og færðin að þyngjast. Næst var haldið að Markarfljótsgljúfrum sem eru hrikafögur. Ekið var upp með Markarfljóti að vestanverðu og stefnt á Krók. Fljótlega breyttist ferðin í hálfgerða svaðilför þannig að mörgum þótti nóg um. Einn jeppinn rann útaf og affelgaðist að framan og var eftir það oftast í bandi. Það snjóaði og færðin hélt áfram að versna. Skömmu eftir Krók þurftum við að fara upp langa og bratta brekku, þar lentum við í miklum erfiðleikum og það tók á annan klukkutíma að koma öllum bílunum upp. Þegar upp kom var ekki ljóst hvar ætti að halda áfram og tók talsverðan tíma að finna réttu leiðina. Við komumst þó fljótlega í Hungurfit en þar er stutt á syðri fjallabaksleið. Allt fór þetta sem sagt vel að lokum.
Skúli K. Skúlason og Ásthildur Bernharðsdóttir gerðu fræga kvikmynd um þessa ferð sem ber nafnið Rótarý fer á fjöll.