Stjórnarskiptafundur Borga í Kópavogi 2010

Stjórnarskiptafundur 2010 haldinn í Ólafsfirði

Tekið úr fundargerð ritaðri 5. júlí 2010.

Fundur nr. 42 á starfsárinu og nr. 451 frá stofnun klúbbsins var haldinn á hótel Brimnesi í Ólafsfirði 27. júní 2010 kl. 19:30. Skráð var 100% mæting þar sem fundurinn var utan hefðbundins fundarstaðar. Fundurinn var liður í fjögurra daga menningarferð um Norðurland. Ferðanefndina skipuðu Anna Linda Aðalgeirsdóttir, formaður, Anna Stefánsdóttir, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir og Stefán Björnsson. Emma Eyþórsdóttir, leiddi síðan hópinn sem hafði umsjón með stjórnarskiptafundinum en með henni störfuðu Ingi Kr. Stefánsson, Rannveig Guðmundsdóttir og Marteinn Sigurgeirsson.



Þrjátíu og einn félagi í Borgum, einn félagi úr Rotaryklúbb Seltjarnarness og makar tóku þátt í ferðinni. Haldið var af stað frá MK síðla dags þann 24. júní 2010 með rútu, sem Guðni Guðmundsson ók af prúðmennsku og færni. Veður var afar gott allan ferðatímann. Það myndaðist strax afar ljúf og gamansöm stemning í hópnum, sem ritari telur að einkenni alla samveru félaga í Borgum. Stansað var af og til og bergt á gömlum dönskum drykk.

Ýmsar skemmtilegar vísur urðu til í ferðinni. Þeim er haldið til haga í bókhaldi klúbbsins, en örfárra verður getið hér í efnislegu samhengi.

Södd og sæl eftir góða máltíða á Blönduósi táruðumst við í Vatnskarði yfir fegurð héraðsins, sem var svo grænt að það var eiginlega blátt, svo vitnað sé í Nóbelsskáldið. Heim að Hólum komum við undir miðnætti og gistum þar.
Vígslubiskupinn, Jón Aðalsteinn Baldvinsson, sagði okkur frá Hólastað og lífi þar á miðöldum. Leiðsögn hans var bæði fróðleg og skemmtileg. Þar lærðum við þau sannindi að svín gengu villt á Íslandi á miðöldum og svínakjöt var þá algengasta kjöttegund á borðum landsmanna.

Frá Hólum lá leiðin að Bæ á Höfðaströnd. Þar rekur Steinunn Jónsdóttir listasetur og stundar hrossarækt. Steinunn tók vel á móti okkur og við fengum að kynnast því sem þrír núverandi listamenn staðarins voru að gera. Við fórum líka á fund Símonar Gestssonar „Bæjarstjóra“ í hesthúsinu og fræddumst um kynbótastarfið. Hópurinn þakkaði fyrir sig með fjórrödduðum söng valinna ferðafélaga, sem Ásrún Davíðsdóttir leiddi. Næsta áning var við Dælisós, en þar stóð þurrabúðin Dæli, þar sem ömmur og afar Önnu Stefánsdóttur og Bjarnheiðar bjuggu í sambýli í smáum torfbæ um árabil. Síðan var haldið í Haganesvík þar sem samlokur, sem voru beint frá býli, voru snæddar.

Úr Fljótunum, sem Snorri af hófsemi titlaði hásæti skagfirskrar fegurðar, var haldið yfir Lágheiði til Ólafsfjarðar. Við Reykjarétt í Ólafsfirði tóku fulltrúar Rkl. Ólafsfjarðar á móti okkur með kaffi og ljúffengum heimabökuðum kökum. Þeir fylgdu okkur síðan að Kvíabekk, þar sem gengið var í kirkju og okkur sagðar mergjaðar sögur. Frá Kvíabekk lá leiðin að elstu hitaveitu landsins, sem nú er rekin af Norðurveitum. Þar flæddi frá holu þrettán, romm og vín fyrir þá sem það vildu og rann ljúflega niður í góðum hópi á fallegum stað. Um kvöldið tókum við þátt í fundi Rkl. Ólafsfjarðar á hótel Brimnesi, þar sem hópurinn gisti. Fundurinn var mjög skemmtilegur og það var gaman að kynnast hefðum Ólafsfirðinga. Auk hefðbundinna fundarskapa á rótarýfundum hafa þau þá hefð að einn félagi flytur féttabréf vikunnar og síðan syngja þeir í fundarlok á undan fjórprófinu lag eftir Jóhann J. Kristjánsson við texta séra Ingólfs Þorvaldssonar. Textinn er svohljóðandi:

Eldarnir brenna,

elfur tímans renna.

Ólgandi lífið hefur margt að bjóða.

Einn lyftir bjargi, annar stýrir penna,

en orðið var fyrsti hreyfimáttur þjóða.

Höfundi lífsins helgum starfið góða.



Það vakti sérstaka athygli margra, hvað einn félaginn úr Borgum var í flottum fötum á fundinum. Hann hafði nefnilega tekið með sér í misgripum jakkaföt sonar síns og komst ekki í þau, en því var snarlega reddað. Af því tilefni orti Ingi Kr.:



Í Ólafsfirði indælt var,

á ýmsu má þar smakka

og vænt er að þekkja Valdimar

ef vanta skyldi jakka.



Valdimar er félagi í Rkl. Ólafsfjarðar og hann jafnan vel til fara.

Eftir fundinn gengu margir niður að höfn til að skoða sólarlagið og mannlífið. Þá orti Ingi Kr.:



Má það teljast mikils virði

að mega vera hér í kvöld

og eiga nótt í Ólafsfirði

í ótrúlegri vinafjöld.




Ingi Kr. var gerður að söngstjóra í rútunni. Hrafn Harðarson sagði þá:


Er undra þó að enginn syngi

í Ólafsfjarðarrútu,

þá söngstjórinn er sjálfur Ingi

og situr fast(ur) í mútu.



Næsta morgun var haldið til Siglufjarðar. Þar tók Örlygur Kristfinnsson, safnstjóri á móti okkur í Síldarminjasafninu og fræddi okkur um stórmerka atvinnusögu Siglufjarðar. Við skoðuðum bæði Síldarminjasafnið og Þjóðlagasafnið, sem er tileinkað minningu séra Bjarna Þorsteinssonar. Hann var uppi á árunum 1861-1938 og var bæði tónskáld og athafnamaður, auk þess að vera prestur. Hann var svo ómissandi á Siglufirði að einu sinni var hann efstur á báðum listum sem buðu fram til bæjarstjórnar. Við lentum líka á balli í bátahúsinu. Þar var hljómsveitin Gómar, sem samanstendur af siglfirskum stútungum, að æfa fyrir Jónsmessuhátíðina ásamt Ómari Ragnarssyni. Til Héðinsfjarðar komumst við í gegnum göngin og áðum þar um stund áður en haldið var að Minni-Grindli í Fljótum, þar sem Bjarnheiður og Sigfinnur voru gestgjafar hópsins, dyggilega studd af Erni og Maríu, sem eru bændur á Ökrum í sömu sveit.

Um kvöldið var síðan stjórnarskiptafundurinn á hótel Brimnesi. Ave Tonnisson, tónlistarkennari, kórstjóri og félagi í Rrkl. Ólafsfjarðar lék á harmonikku í upphafi samkomunnar. Anna, forseti, setti fundinn og ávarpaði Gottfreð Árnason heiðursfélaga Borga sem fyrst kynntist Rótarýhreyfinginni í Ólafsfirði. Ásrún leiddi söngfélaga sína, sem sungu fyrir okkur, Sumar er í sveitum, af stakri snilld. Hátíðarræðuna flutti Magnús Jóhannsson, sem fjallaði um ljós og liti. Hann greindi frá því hvernig ljós og litir auðga og lífga tilveruna. Ekki er allt sem sýnist og það er margt sem gefur lífinu liti. Mismunandi einstaklingar skynja síðan ljós og liti á mismunandi hátt og fer það eftir gerð augans og úrvinnslu heilans. Anna flutti skýrslu stjórnar. Starfið hefur verið blómlegt og undirbúningur þess að halda umdæmisþing Rótarýhreyfingarinnar 15-16. október 2010 hefur sett svip sinn á starfið. Mæting félaga hefur verið sérstaklega góð og var meðaltalsmæting á fundi á starfsárinu rúm 86%. Einnig var mikið um að vera í tengslum við móttöku félaga og maka þeirra úr rótarýklúbbnum Norrköping Louis de Geer frá Svíþjóð. Anna þakkaði samstjórnarmönnum samstarfið og klúbbfélögum fyrir stuðninginn við sig og óskaði verðandi stjórn og klúbbstarfinu velgengni áður en hún setti forsetakeðjuna um hálsinn á Kristjáni Guðmundssyni. Kristján þakkaði Önnu og fráfarandi stjórn velunnin störf og færði þeim öllum handgerðan bréfhníf með upphafsstöfum sínum að gjöf frá klúbbnum. Bjarnheiður, fráfarandi ritari, þakkaði stjórn og félögum fyrir samstarfið og ávarpaði Sveinbjörn, fjarverandi verðandi ritara, þannig:




Tíminn líðu tifar klukkan

taktföst segir lifa, lifa.

Blekið þornað, blessuð lukkan

Bjössi vinur, skrifa, skrifa.



Ýmsir kváðu sér hljóðs og komu með skemmtileg innlegg. Félagar og gestir þeirra nutu kvöldsins í góðum félagsskap og sungið var við skin miðnætursólar fram á nótt.

Síðasta dag ferðarinnar lá leiðin enn um Lágheiði. Fyrsta áningin var snöggt stopp í Hofsósi. Síðan lá leiðin að Kringlumýri í Akrahreppi þar sem ábúendurnir Sigurður Hansen og María Guðmundsdóttir tóku á móti okkur. María rekur lítið gallerí þar sem hún selur handverk sitt úr ull og skemmtilega gamla smáhluti. Sigurður er mikill áhugamaður um Sturlungu og deildi hann með okkur skoðunum sínum á Haugsnesbardaga, sem hann hefur sviðsett á eyrum Djúpadalsár. Þar lifna steinar, sem bera nöfn þeirra sem börðust forðum á Haugsnesi. Sigurður er greinilega í liði með Þórði Kakala, sem hann hefur sérstakar mætur á. Eftir léttan og góðan málsverð á hótel Varmahlíð var síðan haldið suður á bóginn. Mikið fjör var í rútunni.

Hrafn ( Krummi) hélt tölu um það að hann fyndi til minnimáttakenndar með jafn ættstóru fólki og skipuleggjendum ferðarinnar. Hann væri hvergi frá, bara úr Kópavogi. Þá sagði Ingi Kr.:


Lítill mun þar efi á

að ættfræði sé hættuspil.

Krummi er sko hvergi frá

og Kópavogur ekki til.



Ólöf ( Lóa ) sagði “ekkimennina” Krumma og Snorra ( Krummi á ekki uppruna og Snorri kom ekki með jakka ) hafa vakið athygli sína. Hún sagði:



Tvo náunga vil ég nefna í bögu

með neikvæðum formerkjum koma við sögu.

Sá fyrri af kumpánum mætti óklæddur,

en karlanginn seinni er ennþá ófæddur.



Ingi Kr. svaraði:



Í það mætti eflaust spá

og öllum liði sjálfsagt skár,

ef Lóa fengi að fóstra þá,

fæða og klæða í nokkur ár.



Undir lok ferðarinnar og eftir óvæntar og mjög ánægjulegar móttökur Ásgeirs Guðmundssonar að Grímarsstöðum tóku karlarnir að kveðast á

af talsverðri leikni svo að Ólöfu þótti ástæða til að hrósa þeim:



Kappar taka´ að kveðast á

karlar vegamóðir.

Hæfnin ekki hallar á

helvíti´ eru´ þeir góðir.



Að lokum má geta þess að bílstjórinn vill endilega fá að þjóna þessum hópi aftur, sem hann kvað vera skemmtilegasta hóp sem hann hefði hingað til farið með.


Fundargerð ritaði Bjarnheiður K. G