Fréttir
  • Læknarnir Brynjólfur Ingvarsson og Ólafur Oddsson til beggja hliða forseta
  • Málverkasýning í Landsbankanum
  • Rótarýdagurinn 2017

7.6.2017

Starfsemin undanfarið

Kynning á Rotary International, sem haldin var 25. janúar, tókst með ágætum og einnig myndasýning í Amtsbókasafninu í febrúarmánuði. Fyrirlestraröðin hófst með erindi Ágústs Þórs Árnasonar um mannréttindi og kosningarétt, svo ræddu læknarnir Brynjólfur Ingvarsson og Ólafur Oddsson um geðhjálp á Akureyri með hliðsjón af reynslu frá Ítalíu, Jónas Vigfússon kynnti nýtt leiðarkerfi Strætó á Akureyri, Albertína F. Elíasdóttir fjallaði um staðartengsl og staðarvitund, Edward Huijbens fjallaði um „Semester at Sea“ ferð sína ásamt fjölskyldu með kennsluskipinu MS World Odyssey, haustið 2016, Hólmar Svansson frá Sæplasti (Prómens) á Dalvík sagði frá kerjaframleiðslu fyrirtækisins, hérlendis sem erlendis. Jón Hlöðver sagði frá Akureyrarveikinni 1948-9, sem var veirusýking sem smitaði um 7% íbúa, eða 465 manns og breiddist síðar til m.a. Sauðárkróks, Hvammstanga, Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Veiran er skyld polio sem veldur lömunarveiki, en Rótarýhreyfingin vinnur að því að útrýma lömunarveiki á heimsvettvangi. Cherian Essam Sadek, AFS skiptinemi, flutti erindi um heimaland sitt, Egyptaland. Helgi Þ. Svavarsson og Kristín B. Gunnarsdóttir sögðu frá Happy Bridges, nýstofnuðu félagi sem vinnur gegn fordómum og fræðir um ólíka menningarheima. Bjarki Jóhannesson, skipulagsstjóri Akureyrarbæjar, kynnti drög að aðalskipulagi 2018-2030, með áherslu á þéttingu byggðar. Brynhildur Pétursdóttir sagði frá Neytendasamtökunum, starfsemi þeirra og núverandi ástandi innanhúss sem ratað hefur í fjölmiðla.

Tvær fyrirtækjaheimsóknir hafa verið farnar frá áramótum: Til Landsbankans þar sem félagi okkar Inga Karlsdóttir (verðandi forseti 2018-2019) tók á móti okkur og Helgi Vilberg, skólastjóri Myndlistaskólans, sagði frá málverkum sem eru víða í bankabyggingunni. Maí mánuði lauk með heimsókn í Kaldbak, nýjasta skip Samherja, sem smíðað var í Tyrklandi en hannað hérlendis. Sigtryggur Gíslason skipstjóri sagði frá búnaði, hönnun og virkni.