Fréttir
  • Fleytiskilja eða próteinskilja

15.9.2016

Bætt auðlindanýting

15. september 2016

Rannveig Björnsdóttir var með erindi kvöldsins þar sem Auðbjörg Björnsdóttir, sem átti að vera með erindi kvöldsins, forfallaðist. Rannveig talaði um Auðlindakjarna við HA sem studdur er með Uppbyggingarsjóði (áður Vaxtarsamningi Eyjafjarðar). Fjöldi fyrirtækja koma að honum, m.a. Kjarnafæði, MS, Samherji, Fiskeldið Haukamýri og Hveravellir (grænmetisræktun) auk matreiðslumeistara á veitingahúsinu Strikinu. Rúmlega 12 hugmyndir að bættri auðlindanýtingu með nýtingu hliðarafurða voru formaðar innan kjarnans og valið var í samstarfinu að þróa soðkrafta úr hliðarafurðum sem til falla við kjötvinnslu, fiskvinnslu (þorsk), fiskeldi (bleikju) og grænmetisframleiðslu (tómatplöntulauf). Markaðsathugun fór fram hjá RHA (Hjalti Jóhannesson) og í ljós kom að vinna má súpur, sósur, pottrétti og fljótandi fæði úr soðkrafti, svo eitthvað sé nefnt. Soðkraftur er verðlagður á bilinu 1300-2300 kr/kg og hafa veitingahús og mötuneyti að mestu leyti nýtt innflutta soðkrafta. Margar nýjar uppskriftir að soðkrafti voru prófaðar með framleiðsluþægð, bragðgæði, hollustu og geymsluþol í huga. Í ljós kom m.a. að þurrkuð lauf tómatplantna hindruðu örveruvöxt í bleikjusoðkrafti sem er viðkvæmt hráefni m.t.t. geymsluþols. Af annarri vinnu sem í gangi er á þessu sviði nefndi Rannveig nýtingu ónýttra hliðarafurða úr matvælaframleiðslu sem hráefni í fóður. Sem dæmi má nefna þorsksvil og blóðprótein úr fiski en hvort tveggja eru næringarrík hráefni auk þess að innihalda ýmsa aðra eftirsóknarverða eiginleika. Blóðpróteinin voru hreinsuð hugvitsamlega með fleytiskilju/próteinsíu úr blæðingarvatni sem eldisfiski er látið blæða í eftir slátrun en skiljan var hönnun tveggja nemenda við VMA.