Fréttir
Dagbækur frá Hesteyri
24. ágúst 2016
Albertína F. Elíasdóttir, gjaldkeri, flutti erindi um langafabróður
sinn, Bjarna Kr. Pétursson, fæddur 1905 á Hesteyri og bjó þar lengst af,
eða til 1950, en flutti þá til Ísafjarðar og lést 1965. Í dagbókum
Bjarna má lesa um lífið á Hesteyri og starfshætti í Jökulfjörðum, en
Hesteyri tilheyrði Sléttuhreppi og er hluti Hornstranda þó landfræðilega
sé Hesteyri í Jökulfjörðum. Til Hornstranda voru tíðar skipakomur á
árum áður og þótti mörgum samskipti Hornstrendinga
við áhafnir vera tortryggileg og illa séð. Við Stekkeyri, rétt innan
við þorpið, reisti Norðmaðurinn og frímúrarinn Marcus Bull hvalveiðistöð
þar sem tugir manna unnu fram til 1915. Þá tók síldarvinnsla við með
tilkomu Kveldúlfs um 1920, en þegar síldin hvarf
fækkaði hratt á Hesteyri og lagðist byggð þar af árið 1952. Síðast var
búið í Grunnavík 1962. Albertína dvelur á Hesteyri þegar hún er þar, í
einu af 9 húsum sem enn standa og er í eigu fjölskyldu hennar. Dagbækur
Bjarna greina frá daglegu lífi og merkum atburðum,
svo sem þegar hann „...borðaði heilhveitibrauð í fyrsta sinn“ á árinu
1940 og „8. maí 1945: Vopnahlé í Evrópu“. Mikið var deilt á sínum tíma
um þá ákvörðun biskups að flytja kirkjuna frá Hesteyri til Súðavíkur og
Albertína las kvæði sem lýsir þeirri óánægju.
Það er alltaf logn og gott veður á Hesteyri, að sögn Albertínu, og þar
er himneskt að vera, innan um huldufólk og einstaka drauga.